Leggja til að akstur strætó aukist á kvöldin og um helgar

Breytingar eru í farvatninu á leiðarkerfi SVA en til að efla þjónustuna verulega þykir nauðsynlegt a…
Breytingar eru í farvatninu á leiðarkerfi SVA en til að efla þjónustuna verulega þykir nauðsynlegt að bæta við strætisvagni. Mynd/Þröstur Ernir

Til stendur að breyta akstri Strætisvagna Akureyrar (SVA) í nýju leiðarkerfi en m.a. á að auka akstur á kvöldin og um helgar. Í sumar barst Akureyrarbæ undirskriftalisti með nöfnum 42 einstaklinga þar sem skorað var á bæjaryfirvöld að lagfæra kvöld-og helgarakstur.

Frá því að vinna við breytingar á leiðakerfinu hófst vorið 2016 hafa notendur ítrekað óskað eftir bættri þjónustu á kvöldin og um helgar. Aðeins einn vagn á leið 6 ekur á þessum tíma og helgarakstur hefst ekki fyrr en á hádegi og stendur fram til að verða kl. 19 á kvöldin. Málið var tekið fyrir á síðasta fundi umhverfis-og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar.

Í minnisblaði um bætt leiðarkerfi SVA, sem unnið var af fulltrúum Eflu verkfræðistofu og Umhverfismiðstöð Akureyrarbæjar að beiðni bæjaryfirvalda, er m.a. lagt til að leiðir 1 og 3 aki með leið 6 á kvöldin og um helgar og auki þannig við þjónustuna. Í minnisblaðinu kemur einnig fram að til þess að auka tíðni stoppa á hverri biðstöð, og þannig stórauka þjónustustig, sé nauðsynlegt að bæta við strætisvagni. Núverandi kerfi samanstendur af fjórum strætisvögnum, auk fimmta vagnsins sem keyrir á leið 6 eina aukaferð á morgnana yfir vetrartímann til þess að auka þjónustu við framhaldsskólana tvo.

Einnig hafa borist athugasemdir er varða starfsfólk hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri og nemendum í VMA, en þeir sem ljúka vinnu og námi kl. 16:00 þurfa oft að bíða í meira en hálftíma eftir strætó. Því er lagt til í nýju leiðarkerfi að flýta leið 5 um 10-12 mínútur seinnipartinn, þannig að hún gagnist sem flestum.

Þá hefur borið á kvörtunum frá starfsfólki í Miðbænum sem lýkur vinnu á heila tímanum um að tíminn sé of knappur til að ná strætó. Því er lagt til að reynt sé að hafa brottfarir úr Miðbæ Akureyrar sem næst 10 mínútum yfir heila tímann, „en það ætti að vera nægilega langur tími fyrir flesta starfsmenn sem ljúka vinnu á heila tímanum,“ segir í tillögum.

Engar tillögur eru um að hefja gjaldtöku í strætó á ný en frítt hefur verið í strætó á Akureyri undanfarin ár. Tillögunum verður vísað til bæjarráðs til afgreiðslu. 


Athugasemdir

Nýjast