Kvarssandur frá PCC gæti orðið að varnargörðum við náttúruvá

Teymið sem skapaði Varnarhyrnurnar. Frá vinstri: Methúsalem Hilmarsson, Knútur Jónasson Ingibjörg Be…
Teymið sem skapaði Varnarhyrnurnar. Frá vinstri: Methúsalem Hilmarsson, Knútur Jónasson Ingibjörg Benediktsdóttir og Sigurður Páll Tryggvason ásamt Marellu Steinsdóttur, mannauðsstjóra PCC.

Verkefnið Sterk steypa vann fyrstu verðlaun í áskorun PCC Bakki Silicon, á Krubbi-hugmyndahraðhlaupi sem haldið var á STÉTTINNI á Húsavík í mars. Hugmyndin gekk út á  að skapa tækifæri úr þeim 3.000 tonnum af kvarssandi sem fellur til á hverju ári hjá fyrirtækinu.

Í teyminu voru Ingibjörg Benediktsdóttir verkefnastjóri ÞÞ og almannavarnarfulltrúi, Methúsalem Hilmarsson, sérfræðingur um áhættumat og öryggismál, Knútur Jónasson löggiltur hönnuður og Sigurður Páll Tryggvason sem hefur áralanga reynslu af byggingavinnu.Mf: Mæðgur unnu heimavinnuna.

Mæðgur unnu heimavinnuna

Ingibjörg sagði í samtali við Vikublaðið að hugmyndin hafi fyrst kviknað á milli hennar og Brynhildar dóttur hennar. Í aðdraganda Krubbsins hafi þær eytt einhverjum stundum á netinu í að afla sér upplýsinga um hvað væru mögulega hægt að gera úr þessum efnum sem til falla hjá PCC.

„Við komumst m.a. að því að kvarsið er mjög hitaþolið efni og að hægt sé að blanda þessu við steypu. Þannig hófst þessi vinna hjá okkur,“ segir Ingibjörg og bætir við að dóttir sín hafi ekki átt heimangengt á Krubbnum en þar hafi hún fengið til liðs við sig þrjá öfluga liðsfélaga sem getið er hér að ofan.

 Velvilji frá PCC

„Þá hófst vinna við að teikna, hanna og útfæra hugmyndirnar á raunhæfari hátt. Þeir sátu og reiknuðu og reiknuðu enda vita þeir miklu meira um steypu heldur en ég. Þeir fundu út hvað hvert stykki ætti að vera stórt og hvernig væri hægt að flytja þetta og svona,“ segir Ingibjörg og bætir við að hugmyndin sé komin nokkuð langt á leið. „En við eigum eftir að fá verkfræðing til að fara nánar yfir þetta með okkur. PCC hefur líka boðið okkur að koma og fá aðstoð frá verkfræðingi á þeirra vegum.“

 Varnarhyrnur gegn náttúruvá

Útkoman úr teymisvinnunni var ný vara sem þau kalla Varnarhyrnu og er til þess fallin að skapa leiðargarða í náttúruvá, s.s. gegn  hraunflæði, vatni og aur. Hyrnan er forsteypt úr kvartsblandaðri steypu, en með því fæst aukin harka á sama tíma og steypan hefur meira slit- og efnaþol en hefðbundin steypa. Hver eining er um 1.400 kg og raðast í varnargarða á sama tíma og hægt er að stafla þeim þétt til að auðvelda flutning þeirra.

„Það eru náttúrlega öll þessi eldgos búin að vera í gangi á Suðunesjum síðustu ár, þá datt okkur í hug að það væri hægt að nota þetta í varnargarða sem að hægt er þá að raða niður eftir þörfum og svo taka upp aftur og nota annars staðar ef það fer ekkert yfir þá. Svo þróuðust hugmyndir okkar út í það að það væri jafnvel hægt að nota slíka varnargarða í aurskriðum,“ útskýrir Ingibjörg og bætir við að Hyrnurnar hefði verið hægt að nota í aurskriðunum í Útkinn.

Búið að tryggja lénið

Hún segir þó aðspurð að verkefnið sé ekki komið það langt að búið sé að stofna hlutafélag utan um það en þó sé búið að kaupa lén. „En ég hef fengið jákvæð viðbrögð við þessu. Ég fór t.d. á aðgerðarstjórnarráðstefnu fyrri skömmu og þar fékk ég hvatningu frá Suðurnesjum, þau höfðu heyrt af þessu verkefni í fréttum og hvöttu okkur til að halda þessu áfram,“ segir Ingibjörg.

 Hugmyndahraðhlaup magnaður vettvangur

Ingibjörg segir að hugmyndahraðhlaup á borð við Krubb sé frábær vettvangur fyrir fólk sem er að burðast með hugmyndir sem það veit ekki endilega hvað á að gera við.

„Ég vissi ekkert hvað ég var að fara gera eða hvernig þetta myndi virka en ég held að þetta sé góður vettvangur  fyrir svo marga. Það er til svo mikið af fólki í samfélaginu sem er með frábærar hugmyndir og þær þurfa alls ekki að vera fullmótaðar. Þá er þetta svo rétta sviðið, þarna kvikna svo margar nýjar hugmyndir útfrá minni grunnhugmyndum. Þó að útkoman verði ekki akkúrat það sem maður lagði af stað með þá koma líka svo margar hliðarafurðir. Mér fannst þetta alveg frábært og væri alveg til í að elta svona viðburði, mér fannst þetta svo gaman,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi orðið hálf hissa hvað hugmyndin hafi þróast mikið á þessum stutta tíma.

„Knútur, hann teiknaði þetta upp í þrívídd jafnóðum og við hönnuðum þetta, svo kunni ég á þrívíddarprentarann í Fab-labinu svo við gátum hent þessu upp á einu kvöldi, frá hugmynd að líkani,“ segir Ingibjörg að lokum.


Athugasemdir

Nýjast