Þingeyskir framsóknarmenn senda Vegagerðinni tóninn

Eins og fram hefur komið var áætlunarflugi á milli Húsavíkur og Reykjavíkur hætt um mánaðamótin síðustu. Vegagerðin tilkynnti jafnframt að flugleiðin yrði boðin út í þrjá mánuði yfir veturinn en sú ákvörðun hefur vakið hörð viðbrögð heimafólks á Húsavík.

Hefur því verið kastað fram hvort Vegagerðin telji að veturinn á þessu svæði sé aðeins þrír mánuðir en tíðin undanfarið hefur bent til annars.

Nú hefur Framsóknarfélag Þingeyinga  skorað á Vegagerðina að lengja tímabilið sem boðið verði út í sex mánuði. Áskorunin var samþykkt í ályktun á fundi félagsins á fimmtudag sl.

„Fundurinn skorar á innviðaráðherra og fjárveitingarvaldið að tryggja að útboðið feli í sér a.m.k. sex mánuði og miðist við styrkt flug frá októberbyrjun til marsloka,“ segir ályktuninni.  

Þar kemur einnig fram að nýr vegur að Dettifossi, tenging Öxarfjarðar við þjóðveg eitt hafi verið fullgerður árið 2021. Vegurinn falli undir G-reglu Vegagerðarinnar og skorar fundurinn á Vegagerðina að fallið verði frá þeirri reglu um þessa mikilvægu samgönguleið.

„Í dag er heimilit að moka veginn tvisvar í viku að vori og hausti á meðan snjólétt er. Engin þjónusta er yfir veturinn. Þess er krafist að vegurinn falli undir sömu reglur og þjónustuflokk 2, líkt og þjóðvegur nr. 85 og hringvegurinn enda tengir vegurinn þessar leiðir saman,“ segir í ályktuninni.


Athugasemdir

Nýjast