Húsavík - Vilja koma á tengiliðaverkefni fyrir nýja íbúa

Helena Eydís Ingólfsdóttir, fulltrúi D lista og formaður fjölskylduráðs Norðurþings
Helena Eydís Ingólfsdóttir, fulltrúi D lista og formaður fjölskylduráðs Norðurþings

Helena Eydís Ingólfsdóttir, fulltrúi D lista og formaður fjölskylduráðs Norðurþings lagði til á fundi ráðsins í síðustu viku að  hafinn verði undirbúningur að því að koma á tengiliðaverkefni fyrir nýja íbúa í samstarfi sveitarfélagsins, vinnustaða og félagasamtaka. Með verkefninu er átt við að þegar nýir íbúar flytja í sveitarfélagið Norðurþing taki samfélagið höndum saman og greiði leið þeirra inn samfélagið.

Í greinargerð með tillögu Helenu segir að  markmiðið sé að stuðla að betri, skilvirkari og skýrari framkvæmd innan málaflokksins, og bættri þjónustu til að renna styrkari stoðum undir stjórn útlendingamála. Með þessari heildarsýn sé lögð áhersla á mannúð og virðingu og unnið gegn skautun í íslensku samfélagi.

Horfa til Norðurlandanna

Þann 6. mars síðastliðinn sátu formaður fjölskylduráðs og sviðsstjóri velferðar- og lýðheilsusviðs, fjölmenningarfulltrúi og félagsmálastjóri webinar á vegum Nordregio um stuðningskerfi á Norðurlöndunum við flóttafólk og hvernig þau eru í framkvæmd í nokkrum sveitarfélögum í þeim tilgangi að kynna sér fyrirkomulag á móttöku og inngildingu flóttamanna hjá sveitarfélögum á Norðurlöndunum. Í grunninn fær hver og einn flóttamaður tengilið sem aðstoðar við aðlögun að samfélaginu allt frá einföldum hlutum líkt og að læra að rata um samfélagið, hvar er bókasafn, matvörubúð og hvar er hægt læra tungumál viðkomandi lands, til flóknari hluta eins og að aðstoða við tungumálanámið.

Það er á þessum grunni sem Helena leggur til að hafinn verði undirbúningur að því að koma á tengiliðaverkefni fyrir nýja íbúa í samstarfi sveitarfélagsins, vinnustaða og félagasamtaka.

Vinsamlegra samfélag

„Með verkefninu er átt við að þegar nýir íbúar flytja í sveitarfélagið Norðurþing taki samfélagið höndum saman og greiði leið þeirra inn samfélagið. Byggt verði á grunni verkefna sem kynnt voru á webinari Nordregio um norræna módelið um stuðningskerfi við flóttafólk þar sem það á í raun jafnt við um flóttafólk og nýja íbúa og er í anda þess sem ríkisstjórn Íslands hefur sammælst um varðandi aðgerðir í móttöku nýrra íbúa. Verkefnið fáið heitið “Hittu heimafólk” og á ensku “Meet a Local” Ávinningurinn af verkefninu miðað við reynslu sveitarfélaga á Norðurlöndunum felst meðal annars í aukinni þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi, betri aðlögun að íbúa að samfélaginu, betri íslenskukunnáttu íbúa af erlendum uppruna, aukinni þátttöku í ýmiskonar félagsstarfi og sjálfboðastarfi. Að svo stöddu verði ekki gert ráð fyrir viðbótarkostnaði vegna verkefnisins þar sem fyrst og fremst snúi það að því að koma á netverki milli sveitarfélagsins, atvinnulífs og félagasamtaka þannig að þegar nýir íbúar flytja til Norðurþings fái þeir tengilið sem geti verið vinur sem vísar leið innan samfélagsins,“ segir í greinargerð Helenu.

Tillagan var samþykkt samhljóða í Fjölskylduráði.


Athugasemdir

Nýjast