Akureyri - Þátttaka eykst stöðugt í velheppnuðu verkefni Virkra efri ára

Verkefnið Virk efri ár hefur staðið yfir á Akureyri í rúmt ár og þykir vel heppnað.
Verkefnið Virk efri ár hefur staðið yfir á Akureyri í rúmt ár og þykir vel heppnað.

„Við erum afskaplega ánægð með hvernig til hefur tekist, þátttaka hefur aukist jafnt og þétt og við heyrum ekki annað en notendur séu ánægðir með það sem í boði er,“ segir Héðinn Svarfdal Björnsson verkefnastjóri Virkra efri ára. Verkefnið hófst formlega í febrúar í fyrra en þá var byrjað á að bjóða ýmis konar tækifæri til hreyfingar fyrir þá íbúa bæjarins sem náð höfðu 60 ára aldri og voru þeir dreifðir um bæinn.

„Þátttakan hefur aukist línulega síðan við hófum þetta verkefni, en í kringum 60 manns byrjuð með okkur í þessu í fyrra en nú eru þátttakendur um 140 talsins, þannig fjölgun í hópnum er stöðug og heldur bara áfram upp á við,“ segir Héðinn. Margir þátttakenda mæta í fleiri tíma en einn og þeir áhugasömustu víla ekki fyrir sér að mæta í nokkra tíma, en úrvalið er fjölbreytt og það er heldur ekki nein efri mörk sem segja fyrir um hversu marga tíma hver og einn velur að mæta í.

Héðinn segir að fyrsta ár verkefnisins hafi verið nýtt til að prófa ólíka kosti. „Sumt hefur slegið í gegn – og annað ekki orðið jafn vinsælt. Við erum áfram opin fyrir nýjum hugmyndum og uppástungum og höldum áfram með það sem virkar og virðist ná til þátttakenda,“ segir hann.

Nú er vetrardagskrá í gangi og verður fram í miðjan maí. Í byrjun júní verður skipti yfir í sumardagskrá og segir Héðinn að við það færist flest út úr húsi og verði utandyra. Meðal þess sem verður í boði í sumar er frisbígolf, gönguferðir, krokket, pokavarp (e. ,cornhole‘), hjólreiðarferðir og fleira.

Gjaldtaka hefst í haust

Ekki hefur verið innheimt gjald fyrir þátttöku og verður ekki fyrr en næsta haust. Héðinn segir að kostnaður verði að hámarki 4.900 krónur á mánuði og fyrir það gjald fæst aðgangur að öllu því sem í boði er, þátttakendur geti mætt í eins marga tíma og þeir kjósa. „Það eru umræður um að bjóða upp á annað og lægra gjald fyrir þá sem einungis vilja mæta í eitthvað eitt eða jafnvel tvennt, en við munum kynna þetta þegar endanleg niðurstaða fæst þegar nær dregur hausti,“ segir hann.

Frístundastyrkur frábær hugmynd

Umræðan um frístundastyrk fyrir eldri borgarar líkt og er í boði fyrir börn og ungmenni hefur staðið um skeið og hafa eldri borgarar óskað eftir slíkum styrkjum. „Þessi umræða hefur fengið góðan hljómgrunn enda frábær hugmynd, en enn er of snemmt að ræða útfærslur eða tímasetningar í því samhengi. Frístundastyrkur fyrir eldri borgara myndi styðja við Virk efri ár og auðvelda þátttöku, þ.e. þegar gjaldtakan hefst, en alls ekki koma í staðinn fyrir verkefnið,“ segir Héðinn.

„Sumt hefur slegið í gegn – og annað ekki orðið jafn vinsælt,“ segir verkefnastjórinn Héðinn Svarfdal Björnsson.
Pokavarp er eitt af því sem í boði og er hefur slegið í gegn.

Athugasemdir

Nýjast