Yfir 70 nemendur í Mennta- skólanum á Tröllaskaga

Menntaskólinn á Tröllaskaga var settur í fyrsta sinn síðastliðinn laugardag. Skólinn er staðsettur í Ólafsfirði og er nýjasti framhaldsskólinn í landinu. Fjölmargir mættu á skólasetninguna enda opnuðu starfsmenn Háfells Héðinsfjarðargöngin, til að Siglfirðingar ættu auðveldara með að mæta á skólasetninguna.    

Láru Stefánsdóttur skólameistara var efst í huga þakklæti til allra þeirra sem stuðluðu að tilvist skólans ráðamönnum, íbúum og iðnaðarmönnum sem margir hverjir fórnuðu sumarfríi sínu fyrir nemendur skólans eins og þeir tóku fram sérstaklega sjálfir. Skólinn bætist í flóru tveggja framhaldsskóla við Eyjafjörð sem allir eru reknir af sveitarfélögum fjarðarins. Þar með bætast við skólapláss á svæðinu þrátt fyrir samdrátt um allt land. Yfir 70 nemendur eru skráðir í skólann sem eru nemendur að koma úr grunnskóla, nemendur sem snúa heim frá skólum fjarri heimabyggð en einnig eldri íbúar sem láta gamlan draum um að komast í skóla rætast.

Menntaskólinn á Tröllaskaga er býður upp á nám eftir nýrri námsskrá og eru nemendur sex til sjö annir að ljúka stúdentsprófi. Hægt er að stunda nám hefðbundnum brautum félags- og hugvísinda auk náttúruvísinda. Einnig er nám á listabraut þar sem nemendur geta valið um að sérhæfa sig í tónlist, fagurlistum og listljósmyndum, fisktæknibraut sem er í þróun ásamt ferða- og útivistarbraut.

Stofnað hefur verið undirbúningsfélag í samstarfi við sveitarfélög, fyrirtæki í fiskiðnaði, stéttarfélög og skólann til að byggja upp fisktæknibrautina. Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar er formaður stjórnar en reynsla af fisktækninámi er rík í byggðarlagi hennar. Á skólasetningu menntaskólans færði Ólafur Marteinsson framkvæmdastjóri Rammans skólanum eina milljón króna að gjöf sem skólinn hefur ákveðið að fari í uppbyggingu fisktækninámsins.

Háfell færði skólanum stóran stein úr Héðinsfjarðargöngum og setti niður á lóð skólans en göngin eru einmitt forsenda fyrir tilvist skólans. Margir fleiri færðu skólanum fallegar gjafir, Akureyri, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhreppur færðu skólanum ljósmyndir af byggðarlögum sínum. Dalvíkurbyggð og Akureyri veglegar bókagjafir. Fjallabyggð færði skólanum listaverk eftir Garúnu, Sparisjóðirnir í Fjallabyggð veglega gjöf þannig að skólinn fer vel búinn af stað.

Á skólasetningunni voru flutt fjölmörg ávörp. Björn Valur Gíslason flutti ávarp menntamálaráðherra, en einnig fluttu ávörp fulltrúar sveitarfélaganna sem standa að skólanum ásamt Jóni Má Héðinssyni skólameistara Menntaskólans á Akureyri, Kristjáni L. Möller samgönguráðherra og Birki Jóni Jónssyni alþingismanni. Það er því með krafti og björtu brosi sem Menntaskólinn á Tröllaskaga hóf störf og tók á móti nemendum sínum sl. mánudag þegar skólastarf hófst formlega.


Athugasemdir

Nýjast