Stórsýning í Hofi

Frá því í haust hafa nemendur í húsasmíði unnið að byggingu sumarbústaðar. Þetta er árviss bygging v…
Frá því í haust hafa nemendur í húsasmíði unnið að byggingu sumarbústaðar. Þetta er árviss bygging verðandi húsasmiða og er afar kærkomið verkefni fyrir þá til þess að kynnast fjölmörgum þáttum í byggingu húss. Mynd: Óskar Þór Halldórsson.

Meistarafélag byggingamanna á Norðurlandi, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Samtök iðnaðarins standa fyrir „Degi byggingariðnaðarins á Norðurlandi“ 14. apríl nk.

Þennan dag verður byggingar og mannvirkjageiranum á Norðurlandi gert hátt undir höfði bæði með sýningu í Menningarhúsinu Hofi á og opnum húsum á byggingarstöðum og verkstæðum á Akureyri og víðar í landshlutanum milli klukkan 11 og 16. „Tilgangurinn er að vekja athygli á því sem er verið að gera hér á Norðurlandi og ekki síður á verk- og tækninámi,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson, viðburðarstjóri hjá Viðburðastofu Norðurlands en hann heldur utan um sýninguna í Hofi.

Yfir 20 aðilar verða með sýningarbása Í Hofi og þar verður einnig sett upp sérstök upplýsingamiðstöð. Sveitarfélög á Norðurlandi munu jafnframt kynna hvað er framundan í lóðaúthlutun „Þetta er allt sem tengist byggingariðnaði. Allt frá lóðarúthlutun þangað til húseigandinn situr úti á palli með öllarann,“ segir Davíð Rúnar kíminn og bætir við: „Við erum að fara sýna allt þarna. Alveg frá því hvernig glugga þú ætlar að hafa og hvernig steypu þú ætlar að nota. Þarna verða líka fasteignasölur með opið hús og íbúðir til sölu á staðnum. Þá verður hægt að kynna sér fjármögnunarleiðir því þarna verða bankarnir og íbúðalánasjóður að kynna hvað þeir hafa upp á að bjóða. Verktakar kynna starfsemi sína bæði í Hofi og verða með opin hús á verkstæðum víða á svæðinu. Þá verða opnar íbúðir í byggingu út um allan bæ. Þess ber einnig að geta að það er ekki bara á Akureyri sem fyrirtækin opna hús sín. Aðilar á Dalvík, Siglufirði, Sauðárkróki og Húsavík taka einnig þátt í verkefninu.“

Vilja ná til yngstu kynslóðanna

Hugmyndin að sýningunni kemur frá Meistarafélagi byggingarmanna á Norðurlandi. Formaður félagsins, Þórarinn Valur Árnason sagði í samtali við Vikudag að ásamt því að kynna fyrir almenningi húsbyggingar frá grunni að góðu heimili sé tilgangurinn með Degi byggingariðnaðarins ekki síður vera sá að vekja áhuga unga fólksins.

„Það hefur verið áhyggjuefni í mörg ár að það er alltaf að verða erfiðara að fá ungt fólk til að læra iðngreinar. Þetta hefur kannski ekki verið nógu spennandi fyrir unga krakka en við erum aðeins að reyna bæta okkur og erum að skoða hvað við getum gert til að gera iðnnám meira spennandi. Eitt af því sem við erum að gera er að leyfa yngri krökkum að koma til okkar og skoða. Fyrir unga krakka þá er spennandi að fá að prófa verkfæri og tæki,“ sagði Þórarinn Valur.

Eitt af því sem ætlað er að vekja áhuga á iðngreinum er að halda kynningar fyrir grunnskólabörn allt niður í 7. bekk. „Við viljum ná áhuga krakkanna áður en þau eru komin á framhaldsskólaaldur.Ég held að við þurfum að fara þetta neðarlega í aldur, því krakkar sem eru komnir í 9. – 10. bekk eru kannski farnir að ákveða hvað þeir ætla að læra áður en þeir koma upp í framhaldsskóla. Ég held líka að krakkar séu aðeins forvitnari þegar þeir eru yngri og þess vegna um að gera að byrja snemma að vekja áhuga þeirra á iðngreinum,“ sagði Þórarinn Valur.

 „GERT“ til að fjölga nemendum

Undir þetta tekur Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA). Hún segir VMA reyndar alltaf hafa búið vel að því að fá unga nemendur inn í iðnnámið og vonast til að svo verði áfram en að nemendafækkun hafi vissulega komið niður á verkgreinum. VMA tekur þátt í sýningunni í Hofi og verður með bás þar sem kynnt verður það helsta sem skólinn hefur upp á að bjóða í byggingargreinum.

„Við erum einnig með hugmyndir um að kynna námið með öðrum hætti í tengslum við þennan dag. Hugmyndin er að nemendur frá okkur fari í grunnskólana og segi frá Degi byggingariðnaðarins. Eða a.m.k. að gera eitthvað meira í kjölfarið á þessum degi og byggja þá upp samstarf á milli grunnskólana, VMA og þeirra sem standa að þessari sýningu þ.e. fyrirtækjanna og þeirra félaga sem eru með í þessu. Það er jú eitt að kynna nám en það þarf að kynna störfin líka. Ungt fólk í dag býr ekki alltaf að reynslu af þessum störfum og þurfa kannski að fá betri innsýn í þennan heim,- hvað er smiðurinn að gera eða rafvirkinn? o.s.frv.  Áður fyrr hafði ungt fólk gjarnan einhverja tengingu inn í iðngreinar, þó það væri ekki nema í gegnum sumarstörf,“ segir Sigríður Huld en tekur fram ekki sé búið negla niður þessar hugmyndir að svo stöddu.

VMA er aðili að „GERT“ en það er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að auka áhuga grunnskólanemenda á raunvísindum og tækni. Markmið verkefnisins er að tengja skólana við atvinnulífið og bjóða upp á lausnir fyrir nemendur og kennara í grunnskólum sem geta leitt af sér aukna þekkingu og ekki síður áhuga á raunvísindum og tækni og þannig uppfyllt betur framtíðarþörf vinnumarkaðar. Eitt markmið er að nemendur geti tengt nám við störf eftir mismunandi námsleiðum og sjái að engin ein leið lokar öðrum leiðum.

„Við fórum inn í þetta GERT-samstarf núna eftir áramót. Hjá okkur snýst þetta um að  kynna námið í byggingargreinum. Þess vegna er hugmyndin að fara og hitta yngri nemendur en við höfum áður gert. Við höfum verið með kynningar fyrir 9. bekk á öllu námsframboði í skólanum. Núna viljum við ná til aðeins yngri krakka og fjalla aðeins um þessar greinar með því að fara í heimsóknir í grunnskólana sjálfa. Það er alveg nauðsynlegt að þetta samtal og þessar kynningar séu til staðar því ungt fólk í dag hefur bara mjög litla innsýn inn í störfin; og er jafnvel með allskonar fordóma út í bæði störfin og námið í iðngreinum,“ sagði Sigríður Huld.

Verknám er fyrir bæði kyn

Sigríður huld segir aðspurð um fjölda kvenna í byggingargreinunum, að full ásæða sé til að hvetja stelpur sérstaklega til að koma inn í þessar greinar. „Við fundum reyndar fyrir fjölgun stúlkna meðal nýnema sl. haust. Það var „#kvennastarf“ átak í gangi á landsvísu. Hvort það hafði áhrif á þetta veit maður svo sem ekki; en það skiptir auðvitað máli að hvetja stelpur til að koma inn í þessar iðn- og tæknigreinar og strákana inn í t.d. sjúkraliðanám og háriðnnám, þar sem stelpur eru í meirihluta. Það er alveg pláss fyrir bæði kynin í öllu þessu námi, og störfum,“ sagði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri í samtali við Vikudag.

Auk áðurnefndrar dagskrár í tengslum við Dag byggingariðnaðarins á Norðurlandi verður gefið út sérstakt 16-24 síðna frétta- og kynningablað tileinkað deginum. Blaðið kemur út í 13 þúsund eintökum og verður dreift inn á heimili og fyrirtæki á Norðurlandi. Einnig munu Samtök iðnaðarins halda sinn árlega fund þar sem kynnt verður talning íbúðarhúsnæðis í byggingu og horfur á markaði.

-epe

 


Athugasemdir

Nýjast