Óvissa um stækkun flugstöðvar

Líkan af viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli.
Líkan af viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli.

Stefnt er að því að Isavia taki yfir rekstur allra alþjóðaflugvalla landsins frá næstu áramótum, samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Breytingarnar hafa áhrif á mögulega stækkun flugstöðvar á Akureyri og er alls óvíst hvenær framkvæmdir geta hafist. Framkvæmdastjóri KEA vill ekki að ákvarðanir um framtíðarskipan flugvalla trufli nauðsynlega uppbyggingu.

Frá þessu er greint á vef Rúv. Í nýrri fjármálaáætlun til fimm ára er gert ráð fyrir því að flugvellirnir í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum verði færðir undir sama hatt og Keflavíkurflugvöllur - inn í efnahagsreikning Isavia - frá 1. janúar næstkomandi. Með því að reka flugvellina sem eina heild megi tryggja fjármögnun til rekstrar og viðhalds. Ítrekað hefur verið kallað eftir stærri flugstöð á Akureyri til að anna auknu millilandaflugi.

Eins og Vikudagur hefur fjallað um hefur fjárfestinarfélagið KEA boðist til að fjármagna viðbyggingu við flugstöðina og leigja ríkinu til að hraða framkvæmdum. Þær tillögur eru nú til skoðunar hjá stjórnvöldum en engin formleg svör hafa komið. Stefnt hefur verið að því að hefja framkvæmdir í vor fái tillögurnar samþykki. Í svari samgönguráðuneytisins við fyrirspurn Rúv um framgang þessara tillagna kemur fram að unnið sé að breytingum á rekstri millilandaflugvalla. Ljóst sé að niðurstaða þeirra mála hafi áhrif á ákvarðanir um stækkun flugstöðvar á Akureyri. Ekki sé vitað hvenær geti orðið af framkvæmdum og hafa beri í huga að slíkar framkvæmdir falli undir innkaupareglur ríkisins. Ekki er minnst á tillögur KEA í svarinu.

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segir í samtali við Rúv að þetta komi á óvart miðað þann áhuga sem ráðherrar hafi sýnt tillögum KEA. „Ef þetta er rétt þá veltir maður fyrir sér hvort um einhvers konar misskilning geti verið að ræða. Hugmyndin byggir meðal annars á því að hún er óháð því hvernig framtíðareignarhald og -rekstur verður á innanlandsflugvöllum,“ segir Halldór. Ríkið eigi mannvirkin nú þegar og ef Isavia taki þau yfir sé lítið mál að félagið taki yfir leigusamninginn. 

„Lykilatriði þessa máls er að komast í bætta aðstöðusköpun sem fyrst og því var hugmyndin hönnuð þannig að stefnumarkandi ákvarðanir um framtíðarskipan innanlandsflugvalla sem nú liggja fyrir Alþingi trufli ekki þetta bráðamál,“ segir Halldór. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Rúv kemur fram að Isavia hafi þegar gert breytingar á núverandi flugstöð til þess að bregðast við fjölgun farþega á háannatíma. Halldór segir að minni háttar tilfærslur innan núverandi flugstöðvar breyti engu um aðstöðuleysið sem bitni á farþegum í millilandaflugi. „Það þarf einfaldlega að gera töluvert meira svo aðstaðan geti talist boðleg,“ segir Halldór.


Athugasemdir

Nýjast