Opinber heimsókn forseta Íslands og forsetafrúar í Norðurþing

Guðni forseti og Eliza Reid í heimsókn í Þórshöfn. Reyndar ekki Þórshöfn á Langanesi heldur í Færeyj…
Guðni forseti og Eliza Reid í heimsókn í Þórshöfn. Reyndar ekki Þórshöfn á Langanesi heldur í Færeyjum. Mynd: forseti.is

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid halda í opinbera heimsókn í Norðurþing á morgun, miðvikudaginn 18. október og fimmtudaginn 19. október næstkomandi. Forsetahjónin munu heimsækja skóla, heilbrigðisstofnanir, býli og fyrirtæki í sveitarfélaginu þessa tvo daga og boðið verður til Fjölskylduhátíðar í Íþróttahöllinni á Húsavík að kvöldi miðvikudagsins.

Dagskrá heimsóknarinnar hefst að Hveravöllum í Reykjahverfi kl. 08:30 að morgni 18. október þar sem forsetahjón munu kynna sér vistvæna ræktun grænmetis. Þaðan verður haldið til Húsavíkur að leikskólanum Grænuvöllum þar sem Sigríður Valdís Sæbjörnsdóttir leikskólastjóri, nemendur og starfsfólk taka á móti gestum kl. 09:30. Frá Grænuvöllum liggur leiðin í Skrúðgarðinn, sem Kvenfélagið á Húsavík hefur átt veg og vanda að, og síðan í Borgarhólsskóla. Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir skólastjóri, nemendur og starfsfólk kynna forsetahjónum starf skólans og síðan snæða þau hádegisverð með yngri nemendum.

Í hádeginu ávarpar forseti nemendur Framhaldsskólans á Húsavík og svarar fyrirspurnum þeirra auk þess sem nemendur bjóða gestum upp á tónlist. Eftir að forsetahjón hafa kynnt sér fyrirhugaðar framkvæmdir við sjóböð á Húsavíkurhöfða liggur leiðin í Stjórnsýsluhúsið á Húsavík þar sem sveitarstjórnarfólk kynnir þeim helstu stoðir samfélagsins, áskoranir og framtíðarsýn. Forsetahjón hitta síðan eldri borgara í Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hvammi um kl. 13:45 og halda í kjölfarið að Safnahúsinu á Húsavík þar sem skoðaðar verða helstu sýningar undir leiðsögn Sifjar Jóhannesdóttur forstöðumanns. Eftir heimsókn í Húsavíkurkirkju verður litið inn í Helguskúr við Húsavíkurhöfn þar sem spjallað verður við þá sem þar ráða ríkjum.

Kl. 16:00 opnar forseti Íslands formlega nýja sýningu í Hvalasafninu og að því loknu verður efnt til málþings um horfur í ferðaþjónustu á svæðinu með þátttöku nokkurra helstu aðila í greininni. Í kjölfarið heimsækja forsetahjónin síðan Könnunarsögusafnið á Húsavík.

Dagskrá fyrri heimsóknardags forsetahjóna til Norðurþings lýkur með Fjölskylduhátíð í Íþróttahöllinni sem hefst kl. 20:00. Hátíðin er öllum opin.

Að morgni fimmtudagsins 19. október halda forsetahjón fyrst að Lóni í Kelduhverfi þar sem bændur kynna búskapinn. Um kl. 09:20 koma forsetahjón í Grunnskólann í Lundi og ræða þar við nemendur og starfsfólk. Eftir stutta heimsókn að Skinnastað liggur leiðin til Raufarhafnar. Forsetahjón heimsækja Grunnskólann um kl. 11:00, skoða framkvæmdir við Heimskautsgerðið með Jónasi Friðrik og Svövu Árnadóttur og snæða síðan hádegisverð á Hótel Norðurljósum. Eftir hádegi heimsækja forsetahjón GPG fiskverkun á Raufarhöfn og ræða að því loknu við eldri borgara staðarins í Breiðabliki um kl. 13:30.

Frá Raufarhöfn verður haldið að kjötvinnslustöðinni Fjallalambi á Kópaskeri, starfsemin skoðuð og rætt við starfsfólk. Eftir heimsókn í Stóru-Mörk, félagsmiðstöð aldraðra á Kópaskeri, lýkur heimsókn forsetahjóna til Norðurþings við Ásbyrgi. JS

 


Athugasemdir

Nýjast