Mótmæla niðurfellingu almenningssamgangna austan Húsavíkur

Á Raufarhöfn. Mynd: raufarhofn.net
Á Raufarhöfn. Mynd: raufarhofn.net

Verkefnisstjórnir Brothættra byggða á Norðausturhorninu, Raufarhafnar og framtíðar og Öxarfjarðar í sókn, hafa sent frá sér eftirfarandi ályktun vegna niðurfellingar almenningssamgangna:

„Stjórn Eyþings samþykkti á fundi 22.08.2017 að hætta að þjónusta svæðið austan Húsavíkur með Strætóferðum. Þjónustan hefur þegar verið felld niður og það eru engar áætlunarferðir á svæðinu. Með ákvörðuninni er stórlega vegið að þjónustu við íbúa á svæðinu og þeirri uppbyggingu sem á sér stað í dag. Með þessu er verið að dæma svæðið óaðgengilegt fyrir aðra en einkabílaeigendur. Það skerðir möguleika fólks sem vill eiga búsetu á svæðinu að sækja nám og störf út fyrir svæðið, til dæmis ungmenni í námi á Húsavík, Laugum eða Akureyri. Einnig er þetta er skellur fyrir ferðaþjónustuna. Ferðaþjónusta er mest vaxandi atvinnuvegurinn í dag á svæðinu og þessi skerðing dregur úr allri slíkri starfsemi.

Í dag eru starfskraftar og fjárhæðir lagðar í að styrkja svæðið og hefur orðið nokkur ávinningur í verkefnum en svona ákvarðanir setja þar mikið strik í reikninginn og koma fyrir framþróun í nokkrum markmiðum. Það er hastarlegt að á sama tíma og íbúar, stoðkerfi, sveitarfélög, landshlutsamtök og ríki taka höndum saman í byggðarþróunarverkefnum skuli þjónusta hins opinbera vera felld niður með þessum hætti.

Í dag mega póstbílar og aðrir flutningabílar ekki taka farþega. Í dreifðari byggðum þar sem markaðsbrestur er á þjónustu varðandi farþegaflutninga er óhjákvæmilegt að endurskoða slíkar reglur án tafar með það að augnamiði að nýta ferðir sem eru til staðar og þannig komast til móts við íbúa hvað varðar þjónustu.“ JS


Athugasemdir

Nýjast