Í startholunum fyrir fjölmennustu dagana í Hlíðarfjalli

Búast má við að fjöldi fólks muni leggja leið sína í Hlíðarfjall um páskana. Mynd/Auðunn Níelsson.
Búast má við að fjöldi fólks muni leggja leið sína í Hlíðarfjall um páskana. Mynd/Auðunn Níelsson.

Páskarnir eru á næsta leyti og en dagarnir yfir hátíðina eru yfirleitt þeir stærstu þegar kemur að aðsókn í Hlíðarfjall. Þar eru starfsmenn komnir í startholurnar og byrjaðir að undirbúa páskavertíðina. Föstudagurinn langi og Páskadagur eru jafnan fjölmennustu dagarnir og um 3000-4000 manns koma í fjallið á þessum dögum.

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli, segist búast við svipuðum fjölda og undanfarin ár yfir páskana.

„Það er ekkert í kortunum sem segir okkur að það verði eitthvað minna, nema ef veðrið verði þeim mun leiðinlegra. En ég er búinn að rýna í langtímaspána og hún lítur vel út. Það á að fara að snjóa aðeins um helgina og birta svo til. Á Skírdag er t.d. útlit fyrir snjókomu og vægt frost. Við erum því nokkuð bjartsýn og erum á fullu við að undirbúa páskana,“ segir Guðmundur.

Hann segir veturinn hafa farið ágætlega af stað. „Við getum lítið kvartað svo sem. Þetta fór vel af stað í byrjun en svo kom leiðinlegur millikafli með tilheyrandi roki, úrkomu og hitastigi fyrir ofan frostmark. En mars hefur verið frábær, og þá sérstaklega síðustu dagar. Þannig að við erum þokkalega sátt,“ segir Guðmundur.


Athugasemdir

Nýjast