Hvað verður um ruslið sem við flokkum?

„Íbúar í fjölbýli þurfa helst að bæta sig sýnist okkur og þá er flokkun í mörgum orlofsíbúðum mjög s…
„Íbúar í fjölbýli þurfa helst að bæta sig sýnist okkur og þá er flokkun í mörgum orlofsíbúðum mjög slök,“ segir Helgi Pálsson hjá Gámaþjónustu Norðurlands.

Akureyringar standa framarlega þegar kemur að því að flokka rusl en undanfarin ár hafa bæjarbúar flokkað lífrænt, plast, gler, pappa, og blöð svo eitthvað sé nefnt. Ekki eru þó allir sem vita hvað verður um það rusl sem flokkað er dagsdaglega á heimilum bæjarbúa og hvernig það er endurnýtt.

Vikudagur ákvað að kannað hvað verður um ruslið en þar kemur m.a. í ljós að margt af því sem við flokkum fer til Hollands í endurvinnslu.

Lífrænn úrgangur er fyrirferðarmikill á heimilum og fyrirtækjum og sú tunna einna fljótust að fyllast. Það segir okkur t.d. að matarsóunin er alltof mikil, en það er önnur saga og ekki til umfjöllunar hér. Lífræna ruslið er losað í Moltu þar sem úrgangurinn er jarðgerður. Þá fer sláturúrgangur einnig í Moltu. Almennt heimilissorp er urðað í Stekkjarvík, skammt frá Blönduósi. Baggaplasti er safnað, það baggað og flutt til Hollands á markað. Í sumum tilfellum er það flutt til Hveragerðis, í for- og endurvinnslu.

Þá er endurvinnsluefni úr endurvinnslutunnum flokkað sundur í flokkunarstöðunni á Hlíðarvöllum í eftirfarandi flokka: Bylgjupappi sem fluttur er til Hollands á markað þar, fernur/ sléttur pappi sem einnig fer til Hollands, dagblöð/tímarit sem fara til Moltu í jarðgerð og/eða til Hollands, málmumbúðir sem losast hjá málmendurvinnslum Furu eða Hringrás sem bæði eru með starfsstöðvar hér á Akureyri. Plastumbúðir eru fluttar til Sví- þjóðar til frekari flokkunar og þaðan á markað. Rafhlöður eru fluttar til Efnamóttökunnar til flokkunar og þaðan til eyðingar.

Þá er allt gler losað í námu Steypustöðvar Akureyrar (Skútabergs) í Krossanesi þar sem það er malað og nýtt til uppfyllingar.

Á  grenndarstöðvum bæjarins eru ílát undir undir átta flokka. Efnið sem þar safnast fer ekki í flokkun í flokkunarstöðinni heldur er það baggað og flutt út, og/eða losað á áðurnefnda losunarstaði eftir tegund efnisins. Til viðbótar eru stórir úrgangsflokkar sem tekið er á móti á Gámasvæðinu; timbur er tætt og flutt til Moltu sem og garðaútgangur eins og greinar og gras.

Raftæki sem flokkuð eru eftir gerð og hvort þau innihalda spilliefni en mest af þeim er flutt til Efnamóttökunnar í Hafnarfirði og þaðan til eyðingar eða í endurvinnslufarveg, allt eftir samsetningu tækja. Þá eru tölvur hlutaðar í sundur í Fjölsmiðjunni og prentplötur og aflgjafar fluttir suður á meðan kassinn fer í Hringrás eða Furu.

Bæjarbúar hafa slakað á flokkun

Helgi Pálsson, rekstrarstjóri hjá Gámaþjónustu Norðurlands, segir að heilt yfir séu Akureyringar samviskusamir þegar kemur að því að flokka rusl. „En það hefur þó heldur slaknað á því síðustu misseri. Við erum að urða rétt undir 50% af heimilisúrgangi sem er auðvitað frábært,“ segir Helgi. „Íbúar í fjölbýli þurfa helst að bæta sig sýnist okkur og þá er flokkun í mörgum orlofsíbúðum mjög slök,“ segir Helgi Pálsson.


Athugasemdir

Nýjast