Gert ráð fyrir um 150 nemendum í nýjum framhaldsskóla

Samkomulag um stofnun og uppbyggingu nýs framhaldsskóla í Fjallabyggð verður undirritað 3. október nk. í Ólafsfirði og í framhaldi af því verður farið fram á að stofnuð verði bygginganefnd um byggingu skólans. 

 

Áætlað er að byggja nýtt húsnæði undir skólann í Ólafsfirði þar sem hann verður staðsettur, en eins er gert ráð fyrir að hluti vinnustaðanáms verði út í fyrirtækjum eða stofnunum, hvort sem er í Siglufirði, Ólafsfirði eða á Dalvík.  Áætlanir gera ráð fyrir að um 150 nemendur stundi nám við skólann og er stefnt að því að skólastarf hefjist haustið 2009.  Nýi framhaldsskólinn verður einn af framhaldsskólunum í Eyjafirði og á forræði Héraðsnefndar Eyjafjarðar.  Námsframboð verður skipulagt í samstarfi við framhaldsskólana á Akureyri

Jón Eggert Bragason verkefnastjóri í menntamálaráðuneytinu hefur kynnt hugmyndir um nýjan framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð á íbúafundum á þessum þremur stöðum og m.a. bent þar á þau tækifæri sem gefast með nýjum lögum um framhaldskóla, en samkvæmt þeim er skólunum ætlað að semja allar brautarlýsingar.  Á fundunum létu menn hugann reika varðandi námsframboð og var m.a. rætt um þriggja ára stúdentsprófsbrautir í þeim efnum þar sem nemendum gæfist kostur á að taka hluta námsins sem tengdist nærsamfélaginu og eins var rætt um tveggja ára nám til framhaldsskólaprófs þar sem stefnt yrði að því að klæðskerasníða námið sem kostur væri að þörfum og áhuga hverfs og eins. Þá var og rætt um nám til annarra lokaprófa, t.d. félagsliðanám og sjávarútvegsnám.  Möguleikar á námsframboði í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir eru fjölmargir og ekki síður tækifæri á að byggja upp sérstöðu svæðisins, m.a. í sambandi við vetraríþróttir, fjallaleiðsögn, öryggismál og skútusiglingar.  Þá eru söfnin á svæðinu og tónlistin einnig nefnd í sambandi við nám sem tengist menningu.

Nú segir Jón Eggert að velja þurfi úr þeim hugmyndum sem fram hafi komið og hvort um yrði að ræða efni í heila námsbraut eða valgreinar sem væru hluti brautar.  "Það er mikið verk að komast frá hugmynd að afurð og hvernig til tekst getur verið mjög afdrifaríkt fyrir aðsókn að skólanum.  Ef vel tekst til þá er ég sannfærður um að aðrir skólar koma til með að líta til okkar sem fyrirmyndar og að sama skapi koma þeir til með að forðast það sem ekki gengur upp," segir hann í greinargerð um nýja framhaldsskólann.


Athugasemdir

Nýjast