Fyrsta konan til að þjálfa karlalið í íshokkí á Íslandi

Sarah Smiley, 25 ára stúlka frá Toronto í Kanada, er svo sannarlega að vinna brautryðjendastarf í íslensku íshokkíi, sem þjálfari karlaliðs Skautafélags Akureyrar. Það er ekki á hverjum degi sem að konur þjálfa karlmenn í hópíþróttum á Íslandi.  

Vanda Sigurgeirsdóttir, knattspyrnuþjálfari, þjálfaði eitt sinn karlalið Neista á Hofsósi í 3. deild en svo vitað sé eru ekki mörg fleiri dæmi sem hægt er að nefna. Smiley er án efa einn menntaðasti þjálfari í íshokkí sem komið hefur til landsins og hefur auk þess mikla reynslu. „Áður en ég kom til Íslands var ég í vinnu sem einkaþjálfari og sem íshokkíþjálfari í íshokkíæfingabúðum í Kanada. Ég heft æft íshokkí frá því ég var barn í Toronto. Ég var í háskólahokkí og strax eftir námið spilaði ég í eitt ár í NWHL, sem er sterkasta kvennaíshokkídeild heims, þar sem liðið mitt Montreal Axion vann deildina og varð meistari," sagði Sarah, sem er þess utan mikið menntuð í öllum fræðum sem snúa að hreyfingu og meðferð mannslíkamans.

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að flytja til Íslands?

„Stuttu eftir að við unnum deildina í Kanada fékk ég tilboð frá SA um að koma til Íslands og spila með liðinu, ég var ekki lengi að hugsa mig um, stökk á tilboðið og sé ekki eftir því í dag," segir Sarah og bætir við: „Þetta var fyrir tveimur árum og síðan þá hef ég bæði spilað fyrir SA og þjálfað hjá liðinu. Ég var líka ráðin sem landsliðsþjálfari kvennaliðs Íslands og það hefur gengið mjög vel. Við unnum okkar styrkleikaflokk á heimsmeistaramóti kvenna í mars síðastliðnum."

Hefur þú þjálfað karlalið áður, hvernig lýst þér á þá áskorun?

"Ég hef aldrei verið aðalþjálfari hjá karlaliði áður en hef reynslu sem aðstoðarþjálfari karlaliðsins hér hjá SA sl. tvö ár. Ég hef líka reynslu af því að þjálfa stráka 17 ára og yngri í íshokkí æfingabúðum. Ég er mjög spennt fyrir því að þjálfa strákana. Ég hef unnið með þeim í tvö ár og er spennt fyrir því að þjálfa þá vegna þess að þeir eru metnaðarfullir og leggja sig fram, frekar en ég sé eitthvað spennt að þjálfa þá af því þeir eru karlmenn.
Ég sé ekki fyrir mér nein vandamál við að þjálfa þá. Þeir koma vissulega öðruvísi fram við mig en fyrrum þjálfara en það er sennilega af því að ég þjálfa öðruvísi, frekar en af því að ég er kona. Ég er til dæmis sennilega mun strangari en fyrrum þjálfari," sagði Sarah..

Hvernig hefur samstarfið gengið og hverjar eru væntingar þínar fyrir tímabilið?

„Hingað til hefur samstarfið gengið mjög vel, við unnum fyrsta æfingamót vetrarins þar sem ég var mjög ánægð með spilamennsku liðsins. Okkar takmark í vetur er að sjálfsögðu að verða Íslandsmeistari og mitt takmark sem þjáflari er að sjá liðið spila taktískan leik þar sem hver einstaklingur skiptir máli og skilar sínu.

Ég er mjög ánægð með þann leikmannahóp sem ég hef í vetur, hann er góð blanda af reyndum eldri leikmönnum og ungum og efnilegum. Helst vil ég samt fá einn útlendan leikmann sem gæti miðlað af reynslu sinni og kunnáttu til yngri leikmanna," bætir Sarah við.

Þessi geðþekka stúlka er greinilega í miklum metum innan SA enda athyglivert að hún muni koma að þjálfun allra aldurshópa hjá félaginu. Hún mun til að mynda þjálfa kvennalið SA áfram og spila með því auk þess að þjálfa karlaliðið.


Athugasemdir

Nýjast