Framhaldsskólinn á Laugum: Metfjöldi stúdenta brautskráður

Skólameistari ávarpar gesti með nýstúdenta á báðar hendur. Mynd: Kristinn Ingi Pétursson.
Skólameistari ávarpar gesti með nýstúdenta á báðar hendur. Mynd: Kristinn Ingi Pétursson.

34 nýstúdentar voru brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum í blíðskaparveðri s.l. laugardag, (fyrir viku) en aldrei áður hafa svona margir verið brautskráðir frá skólanum. Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson brautskráðist af Félagsfræðibraut með hæstu einkunn allra eða 9,35. Bjargey Ingólfsdóttir brautskráðist af Íþróttabraut með hæstu einkunn stúlkna 8,09. 

Í ræðu skólameistara Sigurbjörns Árna Arngrímssonar kom fram að  þessi hópur stúdenta  væri um þriðjungur af öllum nemendum skólans. Meistari kom víða við í ræðu sinni og vék m.a. að stöðu framhaldsskólanna í sýslunni, en þar gætu verið blikur á lofti.

Að venju fluttu eldri nemendur ávörp, en áður en þeir tóku til máls, ávarpaði fyrrum skólameistari skólans, Hannes Hilmarsson  samkomuna, en hann útskrifaði einmitt fyrsta stúdentahópinn frá Laugum 1993. Fyrir hönd 50 ára gagnfræðinga talaði svo  Bjarni Maronsson. Fyrir hönd 30 ára gagnfræðinga talaði Elín M. Stefánsdóttir. Ávarp  5 ára stúdenta flutti Ísak Már Aðalsteinsson. Og ræðu nýstúdenta flutti Daníel Örn Sólveigarson.

Hallur Birkir Reynisson áfangastjóri flutti ávarp, kynnti dagskrána, gerði grein fyrir starfslokum starfsmanna og stjórnaði útskriftinni. Hann stýrði einnig verðlaunaafhendingu fyrir námsárangur á stúdentsprófi og annað framlag til skólasamfélagsins á Laugum.

 Hallur Birkir Reynisson sleit síðan skólanum með eftirfarandi orðum:

„Vopnafjarðardeild Framhaldsskólans á Laugum er slitið í fyrsta sinn. Þórshafnardeild Framhaldsskólans á Laugum er slitið í áttunda sinn. Framhaldsskólanum á Laugum er slitið í 29. sinn. Skólahaldi í Laugaskóla er slitið í 92. skipti.“ JS

 


Athugasemdir

Nýjast