Færri tilkynningar til barnaverndar

Á árinu 2018 var tekið við 554 barnaverndartilkynningum á Akureyri og að auki var hafin könnun að frumkvæði barnaverndarnefndarinnar sjálfrar í 12 málum á árinu. Er það fækkun frá árinu á undan þegar 594 tilkynningar bárust nefndinni. Þetta kemur fram í árskýrslu Akureyrarbæjar.

Þetta er nokkur breyting frá þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár en á árinu 2017 fjölgaði tilkynningum um 78 á milli ára og þar áður um 66. Málum barna sem hafa verið til könnunar og meðferðar hjá nefndinni hefur þó ekki fækkað, en málefni 305 barna voru til könnunar og meðferðar á árinu, einu barni fleira en á árinu á undan auk þess sem málefni fjögurra ófæddra barna voru til meðferðar á árinu.

Eins og á árinu 2017 er áberandi fjöldi tilkynninga undir flokknum vanræksla foreldra gagnvart barni þar sem mestur fjöldi tilkynninga, eða 176, varðar áfengis- og vímuefnaneyslu foreldra. Í árslok 2018 voru 18 börn í varanlegu fóstri á vegum barnaverndarnefndar, sem er aukning frá því árinu á undan, og þá voru 9 börn í tímabundnu fóstri í lok ársins.

 


Athugasemdir

Nýjast