Bókin Svarfdælasýsl er komin út

Óskar Þór Halldórsson er aðalhöfundur bókarinnar. Auk hans skrifar Atli Rúnar bróðir hans hluta henn…
Óskar Þór Halldórsson er aðalhöfundur bókarinnar. Auk hans skrifar Atli Rúnar bróðir hans hluta hennar.

„Við vorum að fá bókina í hendur og ég verð að segja að ég er mjög ánægður með útkomuna. Þetta er efnismikil bók upp á um 550 blaðsíður og með um 500 ljósmyndir, sem fæstar hafa birst áður opinberlega. Vinnsla bókarinnr hefur verið skemmtilegt hliðarverkefni undanfarin þrjú ár og það er ánægjulegt að sjá ávöxt slíkrar vinnu,“  segir Óskar Þór Halldórsson, aðalhöfundur bókarinnar Svarfdælasýsl sem kom út í gær, 12. október.

Auk hans skrifar bróðir hans, Atli Rúnar, hluta texta bókarinnar, sem var kynnt í útgáfuhófi í Bergi á Dalvík í gærkvöld og í kvöld, föstudag í Norðurslóðasetrinu við Strandgötu á Akureyri kl. 17:00 og þriðja útgáfuhófið verður í Salnum í Kópavogi um aðra helgi, laugardaginn 21. október, kl. 16:00. Allir eru velkomir í þessi þrjú útgáfuhóf sem útgefandi bókarinnar, Svarfdælasýsl forlag sf., stendur fyrir en það settu Óskar Þór, Atli Rúnar og fjögur systkini þeirra frá Jarðbrú í Svarfaðardal, á stofn í því skyni að gefa bókina út. „Vissulega er óvenjulegt að systkini standi að slíkri bókaútgáfu en við ákváðum bara að gera þetta sjálf frá a til ö. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi fjölskylduverkefni,“ segir Óskar Þór.

Viðamikil bók
Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna tengist umfjöllunarefni hennar heimasveit Jarðbrúarsystkinanna, Svarfaðardal. „Þetta byrjaði allt saman sem eilítið grúsk af minni hálfu fyrir þremur árum eða svo og sannast sagna var aldrei inni í myndinni að það grúsk leiddi af sér viðamikla bók. En svona geta hlutirnir þróast á skemmtilegan hátt,“ rifjar Óskar Þór upp.

Þrír aðalkaflar eru í bókinni, í fyrsta lagi er fjallað er um Göngustaðasystkinin svokölluðu, sem kennd voru við Göngustaði í Svarfaðardal og sum urðu goðsagnir í lifanda lífi. „Amma okkar á Jarðbrú var ein þessara sjö systkina og í bókinni er saga hennar og sex systkina hennar sögð og stuðst í frásögninni við bæði skriflegar og munnlegar heimildir fjölda fólk. Þarna er sögð saga fólks í gleði og sorg sem fæddist undir lok nítjándu aldar og á fyrstu árum þeirrar tuttugustu. Áhugaverð saga alþýðufólks, vil ég segja, og ýmislegt mun koma fólki á óvart.“
Annar kafli bókarinnar fjallar um aðdraganda og gerð kvikmyndarinnar Lands og sona, sem var tekin upp í Svarfaðardal kuldasumarið 1979. Varpað er ljósi á ýmislegt við gerð myndarinnar sem ekki hefur áður komið fram.

„Land og synir var og er stórmerkileg mynd og hefur ákveðinn sess í íslenskri kvikmyndasögu. Margir segja að hún hafi markað upphaf íslenska kvikmyndavorsins og öll þekkum við þá grósku í íslenskri kvikmyndagerð sem hefur fylgt í kjölfarið,“ segir Óskar Þór.

Umfjöllunarefni þriðja aðalkafla bókarinnar er Húsabakkaskóli, sem starfaði í fimmtíu ár, frá 1955 til 2005. Skólinn var miðdepill eða hjarta Svarfaðardals í þá fimm áratugi sem skólinn starfaði og á sér merka sögu sem hér er sögð í fyrsta skipti. Mikill fjöldi merkra mynda úr einkasöfnum birtast með umfjölluninni.

Byggt á munnlegum og rituðum heimildum
„Þessi bók er byggð á rituðum heimildum en þó miklu meira á munnlegum heimildum – viðtölum við mikinn fjölda fólks sem var fúst að veita okkur allar þær upplýsingar sem það býr yfir og komu okkur að gagni. Við höfum kallað þessa vinnu okkar blaðamannasagnfræði til aðgreiningar frá heimildavinnu sagnfræðinga sem þeir auðvitað vinna samkvæmt kúnstarinnar reglum. Við leggjum áherslu á lifandi og skemmtilega frásögn og í því skyni birtum við mörg áhugaverð viðtöl sem við höfum tekið,“ segir Óskar Þór

Þó svo að um 500 myndir séu í bókinni – í öllum þremur meginköflunum -  eru fjölmargar ljósmyndir sem út af stóðu. Allar þessar myndir er hægt að sjá á undirvef á vefnum svarfaelasysl.com og þar er  einnig hægt að kaupa bókina. „Bókin verður fyrsta lagi seld í þessum þremur útgáfuhófum, í öðru lagi munum við systkinin verða með hana til sölu, hana verður hægt að panta á vefnum svarfdaelasysl.com og einnig verður hún fáanleg í Pennanum– Eymundsson,“ segir Óskar Þór Halldórsson.

 


Athugasemdir

Nýjast