„Blaut tuska í andlitið“

Akureyrarflugvöllur.
Akureyrarflugvöllur.

Í nýrri samgönguáætlun sem kynnt var í síðustu viku kemur fram að ekkert fjármagn er áætlað til uppbyggingar á Akureyrarflugvelli árin 2020-2024. Þá kemur einnig fram að Egilsstaðarflugvöllur sé í forgangi hjá stjórnvöldum í Flugstefnu Íslands. Þar segir að byggja eigi upp innviði alþjóðaflugvalla landsins með áherslu á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli og lögð áherslu á Egilstaðarflugvöll.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir okkur og allt Norðurland sem hefur unnið ötullega að því byggja hér upp starfsemina,“ segir Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar Akureyrar. „Þetta er ekki í neinu samræmi við það sem okkur verið tjáð hingað til.“ Halla Björk segir að málið verði til umræðu á næsta bæjarstjórnarfundi og að þessu verði mótmælt. „Þetta eru drög og ég ætla ekki að trúa því fyrr en í fulla hnefana að þessu verði breytt.“

„Gríðarleg vonbrigði“

„Þetta er blaut tuska í andlitið,“ segir Gunnar Gíslason oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar. „Sérstaklega í ljósi þess að við áttum fund með ráðuneytisstjóra Samgönguráðuneytisins fyrir nokkru síðan þar sem fullyrt var að Akureyri væri inn í þessari flugstefnu. Við þyrftum ekki að hafa áhyggjur. En annað kemur á daginn. Maður áttar sig ekki á þessu tómahljóði í tunnunni af hálfu ríkisvaldsins. Menn hafa verið sammála um mikilvægi þess að styrkja hér millilandaflug og það þurfi að opna fleiri gáttir inn í landið. Þar hefur verið talað um Akureyri sem fyrsta valkost. Því eru gríðarlega vonbrigði að horfa upp á þessar tölur sem birtast okkar í Samgönguáætlun.“

„Getum ekki setið aðgerðarlaus hjá“

Gunnar segir að ef þessu verði ekki breytt verði bæjarstjórnin á Akureyri ásamt sveitarstjórnum á svæðinu að grípa inn í og fara í framkvæmdir.

„Ég neita að trúa því að þetta verði niðurstaðan, en ef svo fer þá getum við ekki setið aðgerðarlaus hjá. Þá verður Akureyrararbær og sveitarfélögin á NA-landi, og jafnvel NV-landi, að setjast niður og taka ákvörðun um hvað eigi að gera. Ég get ekki séð að við getum bara setið hjá og beðið. Það þýðir að við missum af lestinni,“ segir Gunnar.


Athugasemdir

Nýjast