Akureyrarbær styrkir N4 um tæpar 10 milljónir króna

Akureyrarbær hefur gert samning við N4 um kaup bæjarins á kynningarefni framleiddu af N4 á árinu 2018. Samningurinn hljóðar upp á tæpar tíu milljónir króna og gildir út árið. Lagður var fram viðauki fyrir fjárhagsárið 2018 til að standa straum af samningnum og er mætt með lækkun á handbæru fé.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, segir í samtali við Vikudag að samningurinn snúi að sjónvarpi N4. Spurður hvaða hag bærinn sjá í þessum samningi segir hann að bæjaryfirvöld sjái tækifæri til að koma því betur til skila hvað sé að gerast í bæjarmálunum, og tekur fram að fleiri sveitarfélög á landsbyggðinni hafi farið sömu leið með samningum við N4 og tryggja með því dreifingu um land allt.

„Samningurinn er hugsaður til þess að kynna fjölbreytta starfsemi Akureyrarbæjar og með því að gera þennan samning við N4 er hægt að koma efninu á framfæri í sjónvarpi um land allt í gegnum dreifikerfi sem N4 er hluti af. Það er ýmislegt að gerast sem við bæjarfulltrúarnir viljum koma betur á framfæri,“ segir Guðmundur.

Spurður hvort öðrum fjölmiðlum hér á svæðinu standi sambærilegur samningur til boða svarar Guðmundur: „Með því að gera umræddan samning við N4 er tryggt að efni og umfjöllun um það sem er að gerast í sveitarfé­laginu fer út á dreifikerfið þeirra og er þar með sýnilegt um land allt.“

Eins og Vikudagur fjallaði um fyrr í vor stóð rekstur N4 tæpt og gaf stjórn fyrirtækisins út heimild til að leita að auknu hlutafé inn í fyrirtækið. Stjórn N4 fékk heimild til að auka hlutaféð um 50 milljónir en fyrirtækið velti um 200 milljónum á síðasta ári.


Athugasemdir

Nýjast