Áætlað að reisa tvo nýja leikskóla á Akureyri

Fara þarf í frekari uppbyggingu í leikskólamálum til að koma yngri börnum að segir formaður fræðslur…
Fara þarf í frekari uppbyggingu í leikskólamálum til að koma yngri börnum að segir formaður fræðsluráðs Akureyrar.

Stefnt er að því að nýr leikskóli við Glerárskóla í Hlíðahverfi á Akureyri verði tekinn í notkun árið 2021. Mun leikskólinn rúma 140-150 börn. Gert er ráð fyrir ungbarnadeild í leikskólanum og að þar verði rými fyrir 30 börn á aldrinum eins til tveggja ára. Þá er í skoðun að byggja leikskóla við Lundarskóla eða Naustaskóla.

Þetta er meðal þess sem Akureyrarbær vinnur að til að uppfylla þörf á leikskólaplássum næstu árin. Í nýjum málefnasamningi meirihluta Framsóknarflokks, L-lista og Samfylkingar eru leikskólamál í forgrunni. Færri foreldrar hafa fengið pláss fyrir börn sín bæði hjá dagforeldrum og á leikskólum bæjarins undanfarið og var það á stefnuskrá allra flokka fyrir kosningar að bregðast við þeirri þörf.

Í forgangi að fækka börnum og minnka álag

Ingibjörg Isaksen, formaður fræðsluráðs, segir uppbyggingu leikskóla– taka tíma og mikilvægt sé að hefja strax vinnu við næstu skref. „Það þarf að greina þær fjölbreyttu leiðir sem í boði eru til að hægt verði að koma til móts við foreldra ungra barna en við munum stofna starfshóp sem kemur með tillögur um þær leiðir. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili af sér í lok árs,“ segir Ingibjörg.

Hún segir það muni taka tíma að bregðast við núverandi þörf sem og að fjölga plássum. „Þetta þarf að gerast í nokkrum þrepum og með fjölbreyttum leiðum. Það er í forgangi hjá okkur að fækka börnum á hvern fermetra í leikskólunum og minnka með þeim hætti álag á leikskólakennara. Líkt og áður segir er verið að hanna leikskóla við Glerárskóla sem mun leysa efra húsið á Pálmholti af hólmi. Við munum hins vegar hafa neðra húsið opið áfram þrátt fyrir að nýr leikskóli rísi við Glerárskóla. Með því fjölgar leikskólaplássum um 70. Við viljum læra af reynslunni og hafa þarna svigrúm. Til lengri tíma litið viljum við taka inn yngri börn og getum gert það í skrefum m.a. með þessum hætti,“ segir Ingibjörg.

Greina íbúaþörf eftir hverfum

Ingibjörg segir að farið verði í samstarf við skipulagssvið bæjarins við að greina íbúaþörf og aldurspýramída í hverfum bæjarins og þá hvort næsta skref sé að fara í uppbyggingu leikskóla við Lundarskóla eða Naustaskóla. „Samhliða þessu viljum við styrkja umhverfi dagforeldra og greina kostnaðinn í kringum það.“

Dæmi hafa verið um að börn á Akureyri hafi ekki fengið inngöngu á leikskóla fyrr en við tveggja og hálfs árs aldur. Ingibjörg segir að öll börn fædd fyrir 31. mars árið 2017 fái inngöngu á leikskóla í haust. „Foreldrar hafa fengið staðfestingu á því. Nú eigum við um 30-35 laus pláss og við ætlum ekki að bæta í þau heldur að nýta það til að auka svigrúmið og minnka þannig álag á starfsfólk leikskólanna,“ segir Ingibjörg Isaksen.


Nýjast