Maðurinn sem tók viðtöl við Jesús, Móses, Múhameð og Guð almáttugan!

Heiðar Kristjánsson – maðurinn sem tók viðtöl við Jesús, Móses, Múhameð og Guð almáttugan. Mynd: -ep…
Heiðar Kristjánsson – maðurinn sem tók viðtöl við Jesús, Móses, Múhameð og Guð almáttugan. Mynd: -epe

Í Árbók Þingeyinga 2010 birtist  lærð grein um trúfélög og andlegar hreyfingar á Húsavík, eftir dándimanninn Heiðar Kristjánsson, sem sé Heidda Gutta, sem um þessar mundir starfar hjá Ásprenti/Stíl.

Við fyrsta lestur virtist þetta ósköp hefðbundinn Árbókarfróðleikur. En þegar betur var að gáð blasti við að greinin var í raun skúbb allra tíma, því höfundi tókst, að eigin sögn, að ræða við aðila sem milljarðar manna hafa öldum saman  reynt að ná sambandi við, en án árangurs.

Í inngangi ritgerðarinnar reit höfundur: “Við öflun upplýsinga ræddi ég við fjöldann allan af fólki og alla sem nafngreindir er í þessari samantekt. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir.”

Og svo fer Heiðar að nafngreina aðila: “Yngsti boðberi Guðs er Bahá´ul´lláh. Aðrir boðberar Guðs eru meðal annars Móses, Kristur og Múhameð.”

Með öðrum orðum, fyrst greinarhöfundur hafði, eins og hann staðhæfði í formálanum, rætt við alla sem hann nafngreindi í greininni, þá hafði hann augljóslega setið að spjalli, og kannski yfir ölglasi, með þeim félögum Móses, Jesús Kristi, Múmhameð - og síðast en ekki síst, Guði almáttugum!

 (Ætli þessi viðtöl séu til á segulbandi eða í papírushandriti?) JS


Athugasemdir

Nýjast