Menningararfleifð Leikfélags Húsavíkur til fyrirmyndar

Leikfélag Húsavíkur frumsýnir Óvita eftir Guðrúnu Helgadóttur í leikstjórn Stefáns Sturlu Sigurjónss…
Leikfélag Húsavíkur frumsýnir Óvita eftir Guðrúnu Helgadóttur í leikstjórn Stefáns Sturlu Sigurjónssonar. Myndir/epe

Leikfélag Húsavíkur frumsýnir á laugardag leikverkið Óvitar eftir okkar ástsælasta barnabókahöfund, Guðrúnu Helgadóttur í leikstjórn Stefáns Sturlu Sigurjónssonar.

Verkið skrifaði  Guðrúnu í tilefni af barnaári Sameinuðu þjóðanna árið 1979 og var sett upp í Þjóðleikhúsinu sama ár.  Það sló strax í gegn og hefur verið sett upp víða síðan þá. 

Óvitar gerist í heimi þar sem börnin fæðast stór og verða dugleg að minnka og þroskast. En þó að fullorðna fólkið sé orðið mjög lítið hugsar það mest um sjálft sig og vinnur myrkranna á milli. Þar til vinirnir Finnur og Guðmundur taka málin í sínar hendur og setja allt á annan endann.

dtefan

Stefán Sturla Sigurjónsson leikstýrir uppsetningunni. Myndir/epe

 

Allt orðið klárt fyrir frumsýningu

Blaðamaður Vikublaðsins leit við á æfingu á mánudag og ræddi við leikstjóra sýningarinnar en hann var fullur af lofyrðum um leikhópinn sem að þessu sinni er í yngri kantinum, þó í bland við eldir og reyndari leikara.

Blaðamaður gat ekki betur séð en að verkið væri þá þegar orðið bísna smurt í höndum ungu leikaranna og leikstjórinn tók heilshugar undir það.

„Veistu það að ég er með svo frábæran hóp að við erum bara klár. Nú erum við bara aðeins að fínisera fyrir frumsýninguna. Þau hafa staðið sig svo frábærlega vel þessir krakkar og þeir fullorðnu líka reyndar. Ég held að ég hafi sjaldan eða aldrei lent í því hjá leikfélagi að vera á þessum stað á þessum tíma,“ sagði Stefán Sturla og bætti við að eitthvað hlytu skólarnir að vera gera rétt miðað við getu krakkanna í leiklistinni.

„Jú, ég held að það sé bara skólastarfinu að þakka. Þau eru vel undirbúin og hafa tekið þátt í leiklistarstarfsemi og það hefur skilað sér. Bæði það hvað þau hafa gaman að þessu en ekki síður hvað þau eru tilbúin til að leggja mikið á sig til að ná þessum árangri,“ sagði leikstjórinn reynslumikli, ánægður með samtakamátt þátttakenda en sýningin er afar stór í sniðum.

Óvitar

 Um 40 manns koma að sýningunni

„Það eru 25 manns á sviðinu eða í kringum það en í heildina eru þetta um 40 manns sem koma að sýningunni.“

Stefán Sturla er reynslumikill leikari, leikstjóri og kvikmyndagerðarmaður en þetta er í fyrsta sinn sem hann vinnur með Leikfélagi Húsavíkur og hann kveðst vera uppnuminn af menningarstarfinu á Húsavík.

 Hrifinn af menningarstarfinu á Húsavík

óvitar

„Ég verð að fá að segja það að menningararfleifð hjá Leikfélagi Húsavíkur og hvernig staðið er að málum í samfélaginu hér í bænum er til þvílíkrar fyrirmyndar að það eru fáir sem geta státað af því. Það að hafa svona aðstöðu skapar svo ótrúlega marga aðra möguleika fyrir samfélagið. Fólk sem er að taka þátt í svona uppsetningu lærir skapandi hugsun og skapandi lausnir  og það skilar sér hvort sem fólk verður sjómenn, bílstjórar eða framkvæmdastjórar að það skilar inn í öll störf..

Guðrúnu Helgadóttur hefur alltaf tekist afburðar vel að skemmta áheyrendum sínum í gegnum verk sín og á því er engin undantekning í Óvitum. Þar fer saman grín, alvara og allt þar á milli.

óvitar

„Eins og öll góð leikrit þá fáum við kómík, dramatík og pínulitla erótík,“ segir Stefán Sturla og hlær áður en hann heldur áfram:  „Það eru hjón í verkinu sem eru fyrirmyndarhjón og svo eru önnur  hjón sem eru ekki til jafn mikillar fyrirmyndar. Það sem Guðrún gerir í þessu er að hún veltir upp spurningum um virðingu fyrir öllum aldri. Það gerir hún í þessu tilfelli með því að snúa aldursbilinu á hvolf; að maður fæðist stór eða fullorðin í okkar skilningi og svo minkar maður og verðu lítill með aldrinum. Undirtónninn í verkinu er sá að maður eigi að bera virðingu fyrir hugmyndum og krafti barnanna, virða þeirra starf. Þetta er svona fjölskylduhugleiðing; staða fjölskyldunnar í nútímasamfélagi, í gríni og alvöru,“ segir Stefán Sturla að lokum.

Nú geta Húsvíkingar og nærsveitungar farið að drífa sig í leikhús. Frumsýning er á laugardag klukkan 16 en fyrstu sýningar eru komnar í sölu á vef LH: leikfelagid.is.

 


Athugasemdir

Nýjast