Leikdómur - Í gegnum tíðina

,,Í gegnum tíðina er góð skemmtun og sjálfsagt að hvetja fólk til að sækja Breiðumýri heim
,,Í gegnum tíðina er góð skemmtun og sjálfsagt að hvetja fólk til að sækja Breiðumýri heim" Myndir Magnús Már Þorvaldsson

Leikverk sýnt í félagsheimilinu Breiðumýri

 Höfundur: Hörður Þór Benónýsson

Leikstjórn: Hildur Kristín Thorstensen

Tónlistarstjórn: Pétur Ingólfsson

Seint verður litla félagsheimilið á Breiðamýri flokkað sem gæðavettvangur leiklistar og líklega gerði hönnun þess aldrei ráð fyrir henni sérstaklega. Og Félahsheimiinum landið allt skyldu og hafa verið vettvangur mýmargra ólíkra viðburða, allt frá þrasgjörnum pólitískum fundum .til vandaðra tónleika og leiksýninga. Leiksýning, einmitt. Í yfir 70 ár hefur Ungmennafélagið Efling staðið fyrir leiksýningum eða allt frá árinu 1952. Það eitt er afrek út af fyrir sig og þó ár og ár hafi fallið út er sagan glæsileg og enn er við hana bætt.

 Í gegnum tíðina er hugverk heimamannsins Harðar Þórs Benónýssonar en eftir hann liggja mörg verk óræk sönnun þess að hugurinn er frjór og verandi glaðlyndur að upplagi eru verkin oft og einatt til þess fallin til að gleðja geð leikhúsgesta. Með einfaldri frásögn er leikhúsgestum boðið upp í ferðalag er spannar 30 ára tímabil, allt frá 1950 er lýðveldið var enn barnungt fram til 1980 með gjörbreyttri mynd þar sem yfir 90% íbúa búa nú í þéttbýli. Leikverkið er bundið saman af sögumanni, leiknum atriðum og tónlist þar sem fyrirferðamikil eru þekkt dægurlög er fylgt hafa íslenskri þjóð í gegnum tíðina og í leikverkinu eiga þau stóran þátt í að færa áhorfandann að hverju tímabili sögunnar.

Sögumaður, leikinn af höfundinum sjálfum, myndar þungamiðju verksins. Hann segir söguna er greinir frá fjölskyldumeðlimum í Gröf í Mannskaðadal. Má líta svo á að fjölskylda Gísla (Sigurbjörn Árni Arngrímsson), og Guðríðar (Freydís Anna Arngrímsdóttir) í Gröf og barna þeirra 5 sé saga fjölmargra íslenskra bændafjölskyldna á þessum árum. Ljóst var að bærinn myndi trauðla brauðfæða þau öll í óbreyttri mynd svo ung voru börnin send að heiman þar sem þau skyldu læra á að takast á við lífið utan hins þekkta umhverfis heimahaganna. Gísli og Guðríður sjá að baki tveimur dætra sinna; Jórunni er fór á vit síldarævintýrsins á Sigló hvar föðursystirin Gríma bjó (flytur síðar suður) og Sigríði til höfuðorgarinnar þar sem amerískir dátar heilluðu dætur staðarins sem og aðfluttar.

Leikhúsgestum er boðið í ferðalag sem spannar þrjá áratugi með bráðfyndnum texta Harðar, texta sem stendur okkur svo nærri að auðvelt er að samsama sig með því sem fram fer á sviðinu. Sjálfsagt á það þó fremur við okkur sem komin eru af svokölluðu léttasta skeiði og munum þann tíma sem sagan greinir frá – en allir skemmta sér stórvel. Með liprum hætti fellir höfundur tónlistina að leiktextanum svo úr verður sannverðug frásögn og um stund erum við stödd í öðru tímatali sem er þó svo undarlega nálægt í tíð.

 Hvað skyldu þær hafa verið margar, heimasæturnar, er sneru aftur heim án herra en alls ekki einsamar? Í tilfelli Grafarforeldra fengu þau dæturnar tvær tvöfaldar til baka! Þrátt fyrir þá staðreynd „Gefst Gísli ekki upp á að senda dætirnar frá sér þótt þær komi tvöfaldar til baka“, segir sögumaður kíminn og eins og góðu fólki sæmir stendur fjölskyldan saman og úr rætist í tilfellum beggja dætra – líkt og á að vera í góðri frásögn.

Það er ánægjulegt frá því að greina að bróðurpartur leikhópsins, hljómsveitin öll (flott band), eru nemendur Framhaldsskólans á Laugum. Greinilega nutu þessi unghjörtu þess að vera á sviðinu og túlka (í þeirra huga) löngu liðinn tíma og þau eldri – og reyndari – léku við hvurn sinn fingur í túlkun sinni. Tónlistin er eins og höfundur leggur verkið upp órjúfanlegur hluti sögunnar og í því fellst snilldin af hendi leikstjóra að hafa leikmyndina eins einfalda og við verður komið. Ekkert er á sviðinu er tekur athyglina af leikurunum og er áhorfandanum sett það verkefni í hendur að nota eigið ímyndurnarafl hvar sem sagan er stödd hverju sinni. Í þeim gáska sem sýningin endurspeglar var það ekki snúið en um leið óræk sönnun þess að þau sem á sviðinu stóðu sig með mikilli prýði.

Niðurstaða undirritaðs er að Í gegnum tíðina er góð skemmtun og sjálfsagt að hvetja fólk til að sækja Breiðumýri heim, hverfa aftur um fáein ár og halda svo út í vetrarríkið með bros á vör. Bros á vör og þakklæti fyrir ánægjulega kvöldstnd og það gerir kvöldið sannarlega ekki lakara að leikdeildin býður upp á ýmislegt til að næra kviðinn ekki síður en sálina – og þar er rjómavafflan órjúfanlegur hluti stundarinnar.

  Rjómavafflan,  órjúfanlegur hluti stundarinnar

Athugasemdir

Nýjast