„Hæ-Tröllum“ haldið í áttunda sinn

Söngveisla í Glerárkirkju n.k laugardag.     Mynd aðsend
Söngveisla í Glerárkirkju n.k laugardag. Mynd aðsend

Fjórir karlakórar sameina krafta sína á söngskemmtun í Glerárkirkju næstkomandi laugardag 2.mars, kl. 16:00. Mótið ber yfirskriftina „Hæ-Tröllum“ og er þetta í áttunda sinn sem Karlakór Akureyrar-Geysir stefnir karlakórum  til Akureyrar og nú í samstarfi við Karlakór Eyjafjarðar.

„Hæ-Tröllum“ var fyrst haldið árið 2006 og hefur síðan verið haldið með reglulegu millibili. Þátttakendur að þessu sinni eru, auk Karlakórs Akureyrar-Geysis og Karlakórs Eyjafjarðar; Karlakór Kópavogs og Karlakór Dalvíkur.

Kórarnir flytja nokkur lög hver fyrir sig og síðan sameina kórarnir krafta sína og flytja nokkur klassísk lög úr sögu íslensks karlakórasöngs. Þarna gefst kostur á að heyra og sjá stóran og öflugan kór -  150-160 söngmanna.

„Hæ-Tröllum“ hefur verið einn af föstum liðum í fjölbreyttu starfi Karlakórs Akureyrar-Geysis. Á þessu starfsári stóð kórinn að jólatónleikum með Karlakór Eyjafjarðar og á „Hæ-Tröllum“ sameinast á Akureyri söngmenn við Eyjafjörð og gestir frá Kópavogi. Vortónleikar kórsins verða svo haldnir í Ketilhúsinu á Akureyri 24. apríl og  í Glerárkirkju 1. maí.


Athugasemdir

Nýjast