Útilokar ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, útilokar þann möguleika að Viðreisn myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að loknum kosningum.

Benedikt var til svara í þættinum Harmageddon á X-inu í morgun. Allt frá því að Viðreisn var stofnuð hefur verið látið í veðri vaka að Viðreisn væri aðeins angi af Sjálfstæðisflokki eða einhvers konar útgáfa af honum og myndi jafnvel tryggja áframhaldandi stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins. Margir stofnfélaga Viðreisnar koma einmitt úr Sjálfstæðisflokknum.

Í viðtalinu á X-inu í morgun spurðu þáttarstjórnendurnir Frosti Logason og Máni Pétursson, Benedikt hreint út hvort hann gæti fullyrt að atkvæði greitt Viðreisn yrði ekki atkvæði greitt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks?

Benedikt svaraði: „Ég hef sagt að það sé afar ólíklegt og það er eiginlega eins nálægt því og loforð er. Ég eiginlega sé það ómögulega fyrir mér, ég bara segi það hér og nú“  sagði hann og hélt svo áfram þegar þáttarstórnendur báðu hann um að vera skýrari:

„Ég skal bara segja, það verður ekki slík ríkisstjórn. Það verður ekki ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar eftir kosningar,“ Sagði Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar og tók þar með af öll tvímæli um slíkt ríkisstjórnarsamstarf að loknum kosningum.

 


Athugasemdir

Nýjast