Starfsemi SAk eykst milli ára

Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk).
Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk).

Bjarni Jónasson forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) segir að til þess að geta þróað starfsemi sjúkrahússins áfram á eðlilegan hátt sé þörf á 350 mkr. viðbótarfjárveitingu næsta ár. Það segir hann m.a. vera vegna samþjöppunar þjónustu í heilbrigðisumdæminu og aldurssamsetningu íbúa. Þetta kemur fram í pistli sem Bjarni ritar á vef SAk.

Þar segir hann að á tímabilinu janúar til október á þessu ári sé rekstrarhalli upp á 29 mkr eða 0,5 prósent m.v. fjárveitingu. Fram kemur að launaliðir séu 68 mkr. umfram áætlun og að almennur rekstrarkostnaður sé 76 mkr. umfram áætlun. Á móti komi hins vegar að sértekjur eru 115 mkr. hærri en gert var ráð fyrir. „Uppgjörið endurspeglar aukin umsvif miðað við síðastliðið ár eins og starfsemistölurnar bera með sér. Það er því mikilvægt að viðhalda ráðdeild og aðgát í rekstrinum, skrifar Bjarni í pistli sínum.

Stytting biðtíma gengið vel

Bjarni kemur inn á að starfsemi SAk hafi verið mun meiri fyrstu tíu mánuði þessa árs en árið á undan. Mest er aukingin á handlækningasviði, en sú aukning endurspeglar þá vinnu sem sem sjúkrahúsið hefur ráðist í varðandi styttingu biðtíma eftir gerviliðaaðgerðum og augasteinsaðgerðum. „Það kemur því ekki á óvart að dvalir á skurðlækningadeild eru 21% fleiri miðað við fyrra ár. Legudögum í heild fjölgaði um 1% og sjúklingum á legudeildum um 8%,“ skrifar Bjarni.

Þá kemur jafnframt fram að meðal legutími sjúklinga styttist, fæðingum hafi fjölgað um 4 prósent,aukning er á komum á bráðamóttöku og umtalsverð aukning á komum á dag- og göngudeildir. Súkraflugum hefur fjölgað um 60 frá því í fyrra eða 12 prósent.

Þá segist Bjarni vera bjartsýnn miðað við umræðuna um vilja stjórnamálamanna um að setja aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið, að þær viðbótarfjárveitingar sem nauðsynlegar séu, skili sér á næsta ári.


Athugasemdir

Nýjast