Pappírspokar og persónulegt hreinlæti: Aðalsteinn Þórsson opnar sýningu á skírdag

Eitt af verkum Aðalsteins                                                 Myndir aðsendar
Eitt af verkum Aðalsteins Myndir aðsendar

Myndlistarsýning Aðalsteins Þórssonar, Pappírspokar og persónulegt hreinlæti, opnar í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins á Akureyri á skírdag þann 28. mars kl. 18.

Pappírspokar og persónulegt hreinlæti: í þessari innsetningu verða til sýnis munir úr Einkasafninu, langtíma verkefni Aðalsteins. Auk þess mun hann stunda málun og teikningu í innra herbergi Mjólkurbúðarinnar meðan á sýningu stendur. Þannig á sýningin sér tvær hliðar hina ytri og hina innri, þá eilífu togstreitu í lífi mannsins. Þetta má sjá sem tilraun til að búa til farsælt samhengi þar á milli - sem listamaðurinn álítur eftirsóknarvert.

„Í verkefni mínu Einkasafninu, geng ég út frá því að afgangar neyslu minnar séu menningarverðmæti, á svipaðan hátt og litið er á hefðbundna sköpun, afganga hugans sem menningarverðmæti. Ég leitast við að halda til haga öllu því sem af gengur af minni daglegu neyslu“. Þetta segir Aðalsteinn vera megin inntak Einkasafnsins. Verkefnis sem hann hefur unnið að síðan um aldamótin síðustu. Í þessu verkefni vill hann gera sýnilega stærð einstaklingsins í umhverfinu, efla umhverfisvitund og vinna að sjálfbærni. Samtímis því að skapa nýja fegurðarupplifun þar sem samtvinnast náttúrulifun og menningarupplifun.

 Aðalsteinn opnar sýningu sína á skírdag kl 18 í Mjólkurbúðinni

Aðalsteinn Þórsson f. 1964 á Kristnesi í Eyjafirði. 1989 hóf hann nám í Myndlistaskólanum á Akureyri. Hann lauk MFA námi frá Dutch Artinstitute, ArtEz árið 1998, þá Aki2 í borginni Enchede í Hollandi, Aðalsteinn hefur verið starfandi myndlistamaður síðan. Fyrst í Hollandi en hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 2016. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga, tekið þátt í samsýningum og viðburðum auk þess að vera sýningarstjóri. Aðalsteinn hefur einnig látið að sér kveða í félagsmálum menningarinnar. Megin verkefni hans er þó Einkasafnið, umhverfisverk sem hann starfrækir í gróðurvin í Eyjafjarðarsveit 10 km. sunnan Akureyrar.


Athugasemdir

Nýjast