Leigusamningum sagt upp í verbúðunum á Húsavík

Verbúðirnar á Hafnarstétt. Mynd: Heiðar Kristjánsson
Verbúðirnar á Hafnarstétt. Mynd: Heiðar Kristjánsson

Smábátaeigendur á Húsavík sem verið hafa með aðstöðu undir rekstur sinn í verbúðunum á Hafnarstétt hafa fengið bréf frá svetiarfélaginu Norðurþingi þar sem þeim er sagt upp húsaleigusamningi og er gert að flytja út um áramót.

Þórður Birgisson er einn af þeim smábátaeigendum sem leigt hafa aðstöðu í verbúðunum og hefur nú fengið uppsagnarbréf. Hann er uggandi yfir stöðunni og segir uppsagnabréfið verið óljóst og orðað á þann veg ekki sé gott að átta sig á því hvort til standi að endurnýja leigusamningana eða ekki. „Ég er búinn að reyna að fá svör frá sveitarstjóra en hann hefur ekkert viljað svara mér,“ segir Þórður og bætir við: „Ég fór með bréf til hans sem er undiritað af öllum leigjendum á neðri hæð verbúðanna þar sem við óskum eftir fundi“.

Þórður segist vissulega hafa heyrt sögusagnir um að þegar sé búið að selja neðri hæðina, en það sé eins og oft vill verða þegar upplýsingar liggja ekki fyrir að þá fara sögur á kreik.

Ekki um auðugan garð að gresja

Hann segir smábátaeigendur á Húsavík búna vera reyna að fá samninga endurnýjaða. „Staðan er einfaldlega þannig á Húsavík að það er ekkert um auðugan garð að gresja, ég get s.s. bara talað fyrir mína útgerð og ég veit að það eru fleiri í svipuðum málum - Ef ég missi þetta, þá er ég ekki með annað húsnæði til að beita,“ segir Þórður. „Það er nú ekki orðið mikið um smábátaútgerð á Húsavík á heilsársbasis þannig að þetta er að verða erfitt ef maður þarf að fara berjast við bæjaryfirvöld líka“.

Hann segir mikilvægt að fá svör sem fyrst svo menn fái svigrúm til að gera ráðstafanir. „Það þýðir ekkert að koma með svar í nóvember. Ég fer bara í burtu með útgerðina ef ég fæ ekki verbúð hérna, ég get ekki verið að beita úti,“ segir Þórður.

Ákvörðun liggur fyrir í næstu viku

Í samtali við Vikudag.is sagði Þórir Örn Gunnarsson rekstrarstjóri hafna að ekki lægi fyrir ákvörðun um hvað gera eigi við húsnæðið en bendir á að það verði gert á fundi hafnarnefndar í næstu viku. „Það er fyrst og fremst verið að endurskoða rekstrarfyrirkomulag hússins. Það stendur til að taka ákvörðun að lokinni viðhaldsskoðun og þegar liggur fyrir greinargerð um viðhaldskostnað. Þá verður hægt að taka ákvörðun um það hvort sveitarfélagið vill eiga húsnæðið eða hreinlega að selja það,“ segir hann og bætir við að ef ákveðið verði að eiga eignina áfram þá verði væntanlega farið í að endurnýja leigusamninga.

Þórir segir svo ekki vera að kauptilboð í eignina liggi á borðum sveitarfélagsins en nefnir þó að í gegnum tíðina hafi borist ýmsar fyrirspurnir og menn verið tvístígandi um það hvort selja eigi eignina eða ekki.

Aðspurður hvort hann telji að sveitafélaginu beri að skaffa smábátaeigendum aðra aðstöðu ef til þess kemur að verbúðirnar verði seldar segir hann: „Ég held að það sé að verða barn síns tíma að ríki eða sveitarfélög skaffi einhverjum eitthvað. Þetta eru náttúrlega bara fyrirtæki í rekstri, það þarf þá að vera alveg sérstakt tilfelli ef sveitarfélög ætla að fara í einhverskonar stuðning við einhvern einn atvinnurekstur umfram annan“.

Ekki áhugi fyrir nýjum verbúðaeiningum

Þórir nefnir að hann hafi talað fyrir því að skoða möguleika á því að fá lóð undir verbúðaeiningar á nýrri suðurfyllingu í Húsavíkurhöfn, samskonar þeim sem eru á Akureyri. Hann segist hafa rætt þetta við nokkra smábátasjómenn og spurt þá hvort þeir hefðu áhuga á að kaupa slíkar einingar ef það stæði til boða. „Það hafði enginn áhuga á því,“ sagði hann og bendir á að það séu í raun ekki sjómenn í nema 3-4 bilum í verðbúðunum. „Þeir hafa verið að hverfa þaðan undanfarin ár, og einhverjir verið frekar með aðstöðu sína í geymslugámum. Auðvitað gerir maður sér grein fyrir því að þetta er vont mál fyrir þá aðila sem eru ennþá í rekstri og hafa ekki í annað húsnæði að hverfa, það er í sjálfu sér ekki í mörg hús að venda á hafnarsvæðinu,“ segir Þórir.


Athugasemdir

Nýjast