Húsavik - Gagnrýna ákvörðun um kaup á körfubíl

Slökkvistöðin á Húsavík
Slökkvistöðin á Húsavík

Byggðarráð Norðurþings samþykkti á 457 fundi sínum fyrri skemmstu að körfubíl fyrir Slökkvilið Norðurþings með atkvæðum Hjálmars Boga B-lista og Áka Haukssonar M-lista. Hafrún Olgeirsdóttir D-lista greiddi atkvæði á móti. Áætlaður kostnaður við kaupin er 14,9 m.kr með vsk. á tækinu heim komið miðað við gengi dagsins.

VG óskaði eftir að taka málið til umræðu á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku þar sem ákvörðunin var harðlega gagnrýnd.

Keyptur án aðkomu sveitarstjórnar

Um er að ræða körfubíl sem er 5. bifreiðin til notkunar á slökkvistöðinni á Húsavík, auk þess sem stutt er í afhendingu nýs bíls að andvirði um 100 m.kr. Ágreiningur var í byggðaráði um kaupin á körfubílnum og meirihluti klofinn þar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði á móti. Umræddur körfubíll hefur þegar verið keyptur og afhentur í slökkvistöðina á Húsavík, áður en málið hefur komið fyrir sveitarstjórnarfund og þar með án samþykktar sveitarstjórnar og utan fjárhagsáætlunar,“ segir m.a. í bókun Vg sem segir jafnframt að um óboðlega stjórnsýslu sem gangi gegn samþykktum Norðurþings sé að ræða.

„Byggðarráði er óheimil fullnaðarafgreiða mála sem ganga gegn fjárhagsáætlun og tilgreina samþykktir sérstaklega að sé uppi ágreiningur um afgreiðslu beri sveitarstjórn að taka ákvörðun. Fráleitt er að ganga frá fjárfestingum af þessu tagi og fá eignir eða muni afhenta áður en ákvörðun hefur verið tekin,“ segir í bókninni.

Gengst við slæmri stjórnsýslu

Hjálmar Bogi, forseti sveitarstjórnar tók til máls og viðurkenndi að stjórnsýslan í þesseu máli hafi ekki verið góð en fór yfir mikilvægi þess að tækið yrði keypt.

„Uppbygging slökkviliðs Norðurþings hefur verið mikil frá því að slökkviþjónusta var undir lágmarksviðmiðum árið 2013. Hér var reist mjög stór verksmiðja sem fól í sér kvöð sem fól í sér mjög tímabæra uppbyggingu slökkviliðsins á Húsavík. Nú fáum við gesti til okkar sem dást að glæsilegri aðstöðu slökkviliðsins og við erum í fremstu röð í gerð ýmissa áætlana er varða almannavarnaástand sem getur komuð upp. Þetta gerist ekki að sjálfu sér. Ég segi þetta vegna þeirrar gagnrýni sem slökkviliðið og stjórnendur þess hafa mátt sæta að undanförnum árum,“ sagði Hjálmar

„Okkur barst tilboð um kaup á slíku tæki á góðum kjörum. Ég var tilbúinn að framansögðu að samþykkja þessi kaup. Tækið er mikil lyftistöng fyrir slökkviliðið og eykur björgunargetu þess verulega,“ sagði Hjálmar en viðurkenndi svo að hann væri sammála þeirri gagnrýni sem kæmi fram í bókun Vg.

„Ég ætla hins vegar að taka það á mig og ég er sammála  því sem kemur fram í bókun Vinstir Grænna. Þetta er ekki góð stjórnsýsla. Það er alveg rétt. En það fer ekkert alltaf saman í þessu tilfelli þetta tilboð sem okkur barst sem mér fannst skynsamlegt að ganga að og síðan þunglamaleg stjórnsýsla sveitafélagsins,“ segir Hjálmar.

Aldey Unnar Traustadóttir tók til máls og sagði bókunina alls ekki vera gagnrýni á slökkviliðið heldur stjórnsýsluna.

„Til að halda því til haga þá er þetta ekki gagnrýni á slökkviliðið á neinn hátt. Þetta snýst um stjórnsýsluna í þessu máli. Það lá ekki svona á. Það er ekkert sem segir að við hefðum ekki getað fengið tilboð í körfubíl síðar. Ekki neitt. Við berum ábyrgð og þurfum að vanda okkur. Ég spyr bara, er þetta ákvörðun fyrir tvo aðila að taka, af níu. Er það sanngjarnt? Er það stjórnsýsla sem við viljum vinna með? Mín skoðun er nei, alls ekki,“ sagði Aldey.


Athugasemdir

Nýjast