Hefur myndað báta frá barnsaldri

Haffi á skrifstofunni í Kaupfélagshúsinu þar sem hann starfar fyrri TN. Þar er boðið upp á fjölbreyt…
Haffi á skrifstofunni í Kaupfélagshúsinu þar sem hann starfar fyrri TN. Þar er boðið upp á fjölbreytta prentun, hvort sem er á pappír striga eða skilti. Útsýnið er ekki af verri endanum, yfir Húsavíkurhöfn þar sem Haffi getur fylgst með skipaferðum. Ef vel er að gáð má líka sjá meistarann sjálfan; Pétur Jónasson, ljósmyndara á ljósmyndinni í bakgrunni. Mynd/epe

Húsvíkingurinn Hafþór Hreiðarsson eða Haffi eins og hann er ætíð kallaður hefur ljósmyndað báta og skip frá því hann var strákur og reyndar sitthvað fleira enda ef viðburð ber að garði á Húsavík eða í nærsveitum þá hefur hann sjaldnast verið langt undan með myndavélina um hálsinn.

Nú hefur þessi þúsundþjalasmiður bætt penslinum við verkfærasafnið í listsköpun sinni en hann opnaði sína fyrstu myndlistasýningu fyrir skemmstu á kaffihúsinu Hérna, en það er einmitt systir hans Olga Hrund Hreiðarsdóttir og eiginkona, Elín Sigurðardóttir sem reka staðinn með miklum sóma. Á sýningunni eru nokkrar vatnslitamyndir úr safni Haffa en hann byrjaði að mála af miklu kappi í september á síðasta ári. Bátar og Húsavíkurviti eru gjarna myndefni ljósmyndarans Haffa, og að sjálfsögðu túlkar hann sín þekktustu mótív með penslinum einnig auk fjölda annarra mynda.

Er alltaf þar sem hlutirnir gerast

Sigrún Björk til hafnar

Haffi var að sjálfsögðu á sínum stað til að mynda nýjasta skipið í flota Húsavíkur, Sigrúnu Björk ÞH 100 sem útgerðarfélagið Dodda ehf. lét smíða fyrir sig. Mynd/Haffi.

 

Húsavíkingar þekkja orðið vel til Haffa enda hefur hann verið svo samofin mannlífs og menningarsögu Húsvíkinga um árabil með myndavélina um hálsinn þó sjálfur sé hann ekkert að sækjast eftir athyglinni enda segist hann kunna best við sig á bak við myndavélina. Enda þurfti að tala hann til þegar blaðamaður falaðist eftir viðtali.

Ljósmyndaáhugann rekur Haffi til barnæskunnar þegar hann fór að sýna bátamyndum föður síns, Hreiðars Olgeirssonar skipstjóra, áhuga.

„Ég byrjaði bara sem krakki að handleika þessar fáu bátamyndir sem pabbi átti og fékk mikinn áhuga á þeim. það var eiginlega kveikjan að því að ég fór að mynda sjálfur. Segir Haffi og bætir við að áhuginn komi í grunninn frá föður sínum.

„Elstu myndirnar eru frá ´61 eitthvað svoleiðis, þá var maður byrjaður að velta þessu fyrir sér. Svo hefur þetta auðvitað þróast eitthvað í gegnum tíðina,“ segir Haffi og bætir við að upphaflega hafi það fyrst og fremst verið bátar sem hann mundaði linsuna að. „Þegar ég var fenginn til að mynda fyrir Moggann þá fór maður að líta aðeins upp fyrir bakkann líka. Svo eftir að stafrænu myndavélarnar fóru að koma þá er maður meira og minna alltaf með þetta á sér.“

Þá heldur Haffi úti vefsíðunni Skipamyndir.com. Þar heldur hann utan um gríðarlega stórt safn skipamynda með áhugaverðum upplýsingum.

„Áður en tölvurnar komu þá var maður að líma myndirnar inn í möppur og svona þar sem maður skráði nöfnin á bátunum og helstu upplýsingar,“ útskýrir hann.  Nú sé þetta hins vegar fyrst og fremst á stafrænu formi og á vefnum.

„Svo er ég alltaf að mynda fyrir skipaalmanakið ásamt fleirum. Það er ekki að verða svo mikið um báta hér á Húsavík, þannig að maður þarf orðið að keyra eitthvað í burtu til að mynda,“ segir hann.

 Myndavélin alltaf með í ferðalögunum

Haffi hefur verið duglegur að ferðast um heiminn með fjölskyldu sinni í gegn um árin og á ferðalögum sínum er myndavélin að sjálfsögðu alltaf með í för. Fylgjendur hans á samfélagsmiðlum geta síðan fylgst með ferðum hans og ósjaldan birtir hann myndir úr erlendum höfnum af áhugaverðum skipum. Aðspurður hvort það sé honum ætíð ofarlega í huga að komast niður á bryggju á ferðalögum sínum, glottir Haffi og segir að sjálfsögðu smelli hann af ef bátur verði á vegi hans.

Haffi segist ekki muna sérstaklega eftir eftirlætis mynd en honum þyki alltaf spennandi að komast í tæri við nýja báta sem hann hafi ekki myndað áður.

„Það er alltaf gaman að mynda þegar nýjir bátar koma til hafnar. Ég hef líka farið víða til að eltast við þá,“ segir hann og nefnir Akureyri, Siglufjörð og fleiri sjávarpláss sem hann heimsækir reglulega með myndavélina að vopni.

 Haldið úti fréttavef frá hruni

Þá hefur Haffi haldið úti fréttavefnum 640.is í ótal ár sem hann segir hafa farið vel saman við ljósmyndaáhugann.

Við settum þennan vef í loftið árið 2008 rétt fyrir hrun. Það var fyrst og fremst ljósmyndaáhuginn sem rak mig í það. Reyndar vorum við þrír sem ákváðum að stofna þennan vef en svo heltust hinir úr lestinni,“ segir Haffi og bætir við að hann sinni vefnum orðið bara í hjáverkum enda sé hann í fullu starfi annars staðar.

 Félagsskapur af ljósmynduninni

Haffi á hérna

Ljósmyndunin segir Haffi að hafi byrjað sem áhugamál og sé það fyrst og fremst enn þá enda sé hann sjálflærður í faginu. „Ef maður hefði haft vit á því fara í skóla á sínum tíma, þá hefði maður eflaust farið í ljósmyndun en það varð ekkert úr því. Enda svo sem var ekkert auðvelt að komast að í ljósmyndun á þeim tíma,“ útskýrir hann og bætir við að í gegn um tíðina hafi oft skapast mikill félagsskapur í kringum áhugamálið.

„Við fórum á sínum tíma nokkrir héðan frá Húsavík og gengum  í ljósmyndaklúbbinn á Akureyri. Síðar stofnuðum við svo ljósmyndaklúbb hér á Húsavík. Gerðum það tvisvar reyndar. Klúbburinn var orðinn bísna öflugur á tímabili en svo lognast þetta alltaf útaf aftur,“ segir Haffi og bætir við að í kjölfarið hafi hann farið að velja fjölbreyttara myndefni en bara bátamyndir. Þess má líka geta að Haffi hefur í gegnum tíðina verið fastur gestur á Húsavíkurvelli og myndað knattspyrnuleiki og nú í seinni tíð í Höllinni að mynda á blakleikjum Völsunga.

Haffi hefur í mörg ár verið afar eftirsóttur í bænum en það var varla sá atburður á Húsavík árum saman að ekki var haft samband við Haffa til að koma og taka myndir og hann var mættur með vélina undantekningalítið. „Það hefur dregið úr því. Það eru líka flestir með síma í vasanum orðið og myndir yfirleitt komnar á samfélagsmiðla jafnóðum og þær eru teknar,“ segir hann.

Olga systir heimtaði þetta!

Sýnnigin hans haffa

Það var svo 1. apríl síðast liðinn að Haffi sýndi á sér nýja og alls ekki síðri hlið þegar hann opnaði myndlistarsýningu sína á kaffihúsinu Hérna. Hann vill reyndar ekki kannast við að hafa átt nokkurt frumkvæði að því.

„Það var ekki mér að þakka.. það var Olga, systir sem heimtaði það,“ segir hann og hlær.

Haffi segist vera nýbyrjaður að mála en viðurkennir að það hafi lengi staðið til. „Ég fór á námskeið nítjánhundruð og eitthvað, málaði eina olíumynd og svo ekkert meira. Ég hef áður keypt mér efni og búnað í þetta og ætlað mér að fara mála eitthvað en svo var ég aldrei almennilega ánægður með árangurinn. Svo ákvað ég bara að láta vaða núna,“ útskýrir Haffi.

Og ertu ánægður með þetta núna?

„Tja, það er svona ein og ein,“ segir hann hæverskur að vanda og bætir við að hann hafi skorað á sjálfan sig að mála 100 myndir þegar hann fór í utanlandsferð síðasta haust.

 Skoraði á sjálfan sig

„Ég fór til Spánar í lok sept, þá keypti ég liti og hafði með  mér og setti mér það markmið að mála eina mynd á dag. Við vorum svo komin heim aftur eftir tvær þrjár vikur en þá ákvað ég að fara bara í 100 myndir. Ég náði því í janúar,“ segir Haffi og bætir við aðspurður að hann stoppi varla úr þessu.

„Ég er kominn í 110“, segir Haffi og hlær. „Ætli maður dundi sér ekki við þetta á meðan maður hefur gaman að þessu. Ég vil helst mála eitthvað sem ég þekki. Í fyrri tilraunum mínum var ég svo mikið að eltast við að verkin yrðu eins og ljósmynd. Þess vegna var ég líka aldrei ánægður. Svo ákvað ég að vera ekkert að eltast við það í þetta sinn,“ segir Haffi að lokum.

 


Athugasemdir

Nýjast