Fyrsta skemmtiferðaskipið kemur á sunnudag

Fyrsta skemmtiferðaskipið sem kemur til Akureyrar þetta árið er væntanlegt á sunnudag.    Mynd á vef…
Fyrsta skemmtiferðaskipið sem kemur til Akureyrar þetta árið er væntanlegt á sunnudag. Mynd á vef Akureyrarbæjar

Von er á fyrsta skemmtiferðaskipinu til Akureyrar þetta árið næsta sunnudag, 14. apríl. Samkvæmt bókunum er gert ráð fyrir að 196 skip komi til bæjarins í ár, það síðasta um mánaðamótin september október.

„Veðrið hefur ekkert verið upp á sitt besta síðustu daga og spáin mætti vera betri fyrir helgina, en við munum gera eins vel úr þessu og kostur er,” segir Pétur Ólafsson hafnarstjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands. Skipið er AIDAsol og getur borið 2.194 farþega og tæplega 650 í áhöfn.

Heldur færri skip í ár

Pétur segir að heldur færri skip komi til Akureyrar í sumar en í fyrrasumar, munar þar um 7 til 8 skipum. Í fyrra voru um 250 þúsund farþegar um borð í skipunum og verða því örlítið færri í sumar.

„Síðustu misseri hefur höfnin horft til þess að dreifa skipakomum ef því er við komið til að jafna álagið eins og kostur er og forðast ef hægt er stóra daga,“ segir Pétur. Unnið sé að því að auka samtalið við hagaðila á svæðinu til að bæta móttöku gesta sem heimsækja Akureyri því fjöldi einstaklinga og fyrirtækja á svæðinu hafa beinan hag af skipakomunum.HN hefur tekið upp nýtt bókunarkerfi sem hafnir og umboðsaðilar nota, það heitir DOKK og er nýtist vel til að stýra betur álaginu.


Athugasemdir

Nýjast