Ferðalag til bata

Sigrún Heimisdóttir sálfræðingur og framkvæmdastjóri Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar
Sigrún Heimisdóttir sálfræðingur og framkvæmdastjóri Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar

Á eitthvað að ferðast í ár? Svörin geta verið á ýmsa vegu, falið í sér drauma um framandi lönd og ókunnar slóðir, en líka væntingar um kyrrð og ró í heimahögunum.

Yfirleitt eru ferðalög skipulögð fram í tímann og hluti af því að vera í fríi frá daglegum skyldum og störfum, sem við leitumst við að njóta með okkar nánasta og besta fólki.

En ekki eru öll ferðalög eins, sér í lagi þegar ferðast er í átt til bata.  Þau eru oft ekki skipulögð fyrirfram, jafnvel með óljóst upphaf og ekkert víst að þau hafi endi. Þannig ferðir byrja jafnvel með lúmskum vísbendingum um eitthvað framandi, sem smátt og smátt fær athygli okkar og tekur yfir. Grandalaust missir fólk sjónar á því útsýni sem daglega lífið bauð áður uppá, og landslagið fer að einkennast af öryggisleysi og óvissu. Stundum byrja bataferðir með kollsteypu niður bratta brekku jafnvel með harkalegri lendingu í hrjóstrugum jarðvegi neðst í gilbotni. Þá rankar fólk við sér liggjandi einhversstaðar ráðvillt og jafnvel kylliflatt. Þessi ferðalög hefjast með veikindum eða áföllum.

Hvað getum við gert annað en að reyna að ná áttum, í ferð sem við pöntuðum ekki, hvað þá skipulögðum. Óveðursský, togstreita og ringulreið eru hluti af ferðinni. En ef við höfum góðan áttavita og útbúnað með í för eflast ferðalangarnir smátt og smátt í leitinni að næsta áfangastað. Hver kannast ekki við að lenda á hindrunum og einhverskonar veseni í ferðalögum. Bataferðalangurinn rekst á afneitun, fordóma, kvíða, reiði, og jafnvel sorg. Sumir rekast líka á einmannaleikann. Sjálfsgagnrýni er oft samferða með vinum sínum skömm, depurð og tilgangsleysi. Útbúnaðurinn virkar ekki alltaf nægjanlega vel í þessum ferðum eða er kostnaðarsamur. Torfærurnar eru ýmsar s.s. í formi biðlista, kerfisvillna, samfélagslegra viðhorfa og þekkingarleysis. Það eru ýmsar áskoranir í þessum ævintýraferðum. Áskoranir sem getur reynst erfitt að yfirstíga. Fátt er þó í stöðunni annað en að svipast um eftir hjálp, hvatningu og leiðinni áfram.

Flestir ná að fóta sig í erfiðum jarðvegi og halda áfram þrátt fyrir veikindin eða áföllin. En til þess þarf aðlögun og bjargráð. Þessi staða er stundum kölluð „þvinguð aðlögun“ þar sem fáir óska sér þessa ferðalags eða panta það fyrirfram. Aðlögunin felst í því að geta risið upp úr togstreitunni, áttað sig á nýju landslagi, virkjað útbúnaðinn og bjargráðin til að halda áfram. 

Þetta mikilvæga ferðalag er mismunandi hjá hverjum og einum og áfangastaðirnir fjölbreyttir. Ferðin er lærdómsrík og flestir reynslunni ríkari eftir að hafa kannað þær ókunnu slóðir sem vörðuðu leiðina til batans. Oft er lokamarkmiðið með ferðinni að komast aftur heim. Á staðinn sinn og standa þar með fjölskyldu, vinum og kunningjum, með hlutverk og tilgang. Uppi í hlíðinni með yfirsýn og útsýni.

Það er gefandi að vera samferða fólki í þessum mikilvægu ferðalögum. Geta rétt bjargráð og leiðbeint með notkun þeirra. Sýnt skilning, hlustað og verið til staðar. Það er gefandi að sjá styrk fólks til sjálfshjálpar eflast og kynnast í leiðinni þrautseigum ferðalöngum sem leitað hafa að vegvísum í átt að bata. Fagfólk Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar þakkar þeim fjölmörgu ferðalöngum sem leitað hafa til stofunnar í þessum tilgangi, þau þrjú ár sem hún hefur starfað. Fagfólk sem mun áfram leggja sig fram og verður til staðar fyrir þá sem takast á við veikindi eða áföll, miðstöð heilsueflingar,-  fyrir fólk á ferðalagi til bata.

Höfundur er sálfræðingur og framkvæmdastjóri Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar

 


Athugasemdir

Nýjast