ART AK opnar gallerý og vinnustofur

Það hefur mikið gengið á við að gera húsnæðið klárt undir ART AK. Ljósmyndir eru fengnar með góðfúsl…
Það hefur mikið gengið á við að gera húsnæðið klárt undir ART AK. Ljósmyndir eru fengnar með góðfúslegu leyfi frá Facebook-síðu ART AK.

ART AK er splunkunýtt fyrirtæki á Akureyri sem verður með gallerý og vinnustofur myndlistarmanna við Strandgötu 53b. (gamla sjóbúðin).

Það er listakonan Thora Karlsdóttir sem stendur á bak við stofnun fyrirtækisins en hún hefur verið áberandi í listalífi Akureyrar um langt skeið. „Ég er búin að vera með þessa hugmynd lengi, þ.e.a.s að sameina listamenn undir einu þaki með lifandi starfsemi þar sem er líka til sýnis og sölu þau listaverk sem er verið að skapa,“ segir Thora í samtali við Vikudag.is.

ART AK

Thora segir að augu sín hafi opnast þegar hún var í námsferð í París fyrir nokkrum árum. „Þar fann ég með samnemendum mínum 59 rivoli, 20 listamenn undir sama þaki. Stemningin og staðurinn var bara æði.  Allir með verkin sín til sölu og fullt af fólki að skoða staðinn,“ segir hún og ástríðan leynir sér ekki.

Það sem Thora vísar hér til er að hústökulistamenn tóku yfirgefna byggingu í París og settu upp vinnustofurnar sínar og höfðu opið fyrir gesti og gangandi. „Ég heillaðist gjörsamlega af staðnum þegar ég var í París fyrir mörgum árum síðan og fannst þetta svo magnað að mig langaði bara að fara að vinna að listinni minni á staðnum og sleppa því að fara heim. En það var ekki hægt svo ég ákvað að láta mig dreyma um það þangað til að það gæti orðið að veruleika. Svo ákvað ég að láta drauminn rætast á Akureyri,“ segir hún en bætir strax við að hún hafi ekki fundið yfirgefið hús og tekið það trausta taki heldur leigir hún húsnæðið og hefur stofnað utan um það fyrirtækið ART AK. „Ég vona samt að ég nái einmitt sömu stemningunni og ég upplifði í París,“ segir hún og brosir.

Hún segist hafa gengið með það í maganum lengi að opna gallerý sem líktist Samlaginu eins og það var á sínum tíma, þar sem listamenn fá aðstöðu til að sýna verk sín og selja milliliðalaust. „En svo ákvað ég að prófa að vera með vinnustofur og gallerý á sama stað, og var heppin að fá þetta fína húsnæði við Strandgötu,“ segir Thora en í sama húsnæði var áður til Norðurport og þar áður Sjóbúðin.

ART AK

Thora segist fullviss um að gallerý af þessu tagi eigi fullt erindi í bæjarfélagi eins og Akureyri. „Ég hef trú á þessu, finnst að það vanti einmitt svona stað hérna á Akureyri. Þetta er menningarleg afþreying, sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. það verður fullt að gerast hjá okkur eins og sjá má á dagskránni“.

Tekið verður á móti fyrsta hópi ferðamanna á morgun föstudag. „Staðurinn opnar ekki formlega fyrr en á laugadaginn, þannig að það verður svona smá þjófstart.  Bæjarbúar, gestir, innlendir og erlendir eru velkomnir til okkar, við getum boðið uppá eitt og annað fyrir utan hefðbundnar sýningar og sérsniðna viðburði fyrir litla og stóra hópa,“ segir Thora Karlsdóttir.

ART AK opnar formlega á laugardag kl. 13 með „KAOS“ sölusýningu Norðlenskra listamanna.

Það sem boðið verður upp á hjá ART AK er eftirfarandi:

- Vinnustofur

- Gallerý, opið föstud.laugard.og sunnud. 13-18 fram að jólum 

- Sýningar

- Viðburðir

- Gjörningar

- Listamannaspjall, fyrir hópa

- Örnámskeið, fyrir hópa

- Tekið á móti hópum, litlum stórum, innlendum, erlendum.

- Listaverka uppboð, einu sinni á ári

- Listaverka leiga, fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki

- Vefverslun með listaverk

 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast