Af kúrum, kjöti og kolvetnasvelti

Ævar Austfjörð.
Ævar Austfjörð.

Hvatinn að skrifum þessa pistils er grein Ásgeirs Ólafs á vikudagur.is þann 13. mars síðastliðinn sem hann kallar „Enn einn megrunarkúrinn“

Sú ágæta grein hefst á umjöllun um matariðnaðinn og sykurneyslu  og reyndar tveimur góðum ráðum um það hvernig „við“ fólkið  væntanlega, getum barist á móti því sem við Ásgeir virðumst sammála um að matariðnaðurinn sé að reyna að gera þ.e. að blekkja fólk. Því ætla ég ekki að eyða orðum á þann hluta heldur það sem hann talar um seinna í greinninni, semsagt enn einn megrunarkúrinn.

En yfrst ráðin tvö frá Ásgeiri: „Fyrst þá þurfum við að fræða okkur, og til viðbótar því þurfum við að gefa okkur tíma.“
Góð ráð og ekki svo dýr.

Kúrar

Kúrar eru þannig að maður ákveður að breyta til til stuttan tíma til að ná fram einhverri breytingu. Þegar markmiði er náð er gjarnan breytt til baka af einhverjum undarlegum ástæðum. Ég meina...kúrinn hefði líklega verið óþarfur ef lífstíll fyrir kúr væri að virka sæmilega.
Ásgeir talar um að fólk setji sig í matarfangelsi og komi svo öskrandi til baka og missi tökin. Það er mikið til í þessu. En ég vil þó benda á að margir eru stjórnlausir vegna þess að þeir eru að borða vitlaust fæði. Fæði sem ekki er mjög saðsamt og gerir fólk svangt fljótt aftur. Oft breytist þetta við að taka eitthvað út úr fæðinu. Oftast er það eitthvað kolvetnaríkt og því hefur lágkolvetnafæði orðið mjög vinsælt. Ásgeir leggur á það áherslu og notar sem mælikvarða á árangur að fá fólk til að hætta á megrunarkúrum. Ég googlaði Ásgeir aðeins og spurðist fyrir og mér skilst að hann sé einkaþjálfari. Mér þykir þetta vægast sagt skrýtið viðhorf einkaþjálfara. Ef kúrinn virkar væri þá ekki líklegra til langtíma árangurs að hjálpa fólki að finna leið til að hætta ekki á kúrnum og gera hann að lífstíl. Af hverju að fá sér pítsu aftur ef líf án pítsu gefur betri líðan og heilsu.
Fáðu þér frekar steik.

Kjöt

Ég byrjaði sjálfur að borða kjöt eingöngu sem þáttakandi í 90 daga rannsókn. Ég var einn af um 200 þáttakendum víða um heim. Síðan eru liðnir 7 mánuðir og ég hef ekki fundið nein góð rök til að snúa til baka og borða mat sem augljóslega var ekki að gera mikið fyrir mig. Um það leiti sem 90 daga rannsókninni lauk um miðjan nóvember 2017 var haft samband við mig af fjölmiðlum og einhver viðtöl birtust. Í kjölfarið af því bókstaflega rigndi yfir mig fyrirspurnum um þennan lífstíl svo ég stofnaði hóp á facebook einfaldlega til að geta svarað fyrirspurnum á skilvirkari hátt.
Það er fjöldi fólks um allan heim sem borðar bara kjöt (Carnivore) eða bara dýraafurðir (Zero Carb)  Sumir hafa gert það mjög lengi. Ég er í sambandi við fólk sem hefur borðað svona fæði allt frá nokkrum mánuðum og upp í 20 ár. Já 20 ár af kjöti eingöngu.
Ég hika ekki við að segja að mér hafi aldrei liðið eins vel og núna. Ég geri það vegna þess að það er staðreynd málsins en ekki til að fá fleiri með. Jú ég missti nokkur kíló en það er klárlega mjög lítill áhrifavaldur í bættri líðan. Það eru reyndar nokkuð margir í þessum hópi sem líður mun betur og hafa ekki misst nein kíló.
 Ég hef engan ávinning hvorki  fjárhagslegan né nokkurn annan af því að fá fleiri með. En ef ég er spurður hvort ég mæli með þessu þá er svarið afdráttarlaust JÁ. Og ef ég er spurður hvort einhver ætti að prófa þá svara ég líka já. Það er nefninlega vonlaust að vita hvernig þetta virkar og tala um svona mataræði af einhverju viti án þess að hafa prófað. Ásgeir ;)

En varðandi að skrá sig í kúr...þá er enginn að skrá sig í eitt eða neitt. Fólk er að leita að betri líðan vegna þess að því sem haldið hefur verið að okkur síðustu 40 árin eða svo eru ekki góð ráð.

Kolvetnasvelti.

Ásgeir talar um kolvetnasvelti og að kolvetni séu aðalorkugjafi líkamans. Þetta hljómar svona eins og næst muni hann segja að ég þurfi að borða sex sinnum á dag til að halda jafnvægi á blóðsykrinum.
Ókey. Kolvetni fita og prótein eru orkuefnin. Fita og prótein eru lífsnauðsynleg og við getum ekki lifað án þess að borða þau. Kolvetni hinsvegar er ekki lífsnauðsynlegt að borða vegna þess að líkaminn getur búið til allan þann glúkósa sem hann ÞARF. Og nei það gengur ekki á vöðvamassa hjá heilbrigðri manneskju sem getur hreyft sig hjálparlaust. (Gluconeogenesis fyrir áhugasama) Ég veit að í næringarfræði við Háskóla Íslands er það kennt að kolvetni séu aðal eða uppáhalds orkugjafi líkamans. Það er einfaldlega rangt og sá áróður kemur ef vel er að gáð  líklega frá matariðnaðinum ásamt áróðri um nauðsyn trefja og kornmetis.
Og nei við myndum ekki hætta að drekka vatn. Kommon! Vatn er lífsnauðsynlegt ;)

Að lokum

Ekkert dýr á jörðinni offitnar af því fæði sem henni er ætlað að borða. Hverri tegund er ætlað að borða það fæði sem forfeður og mæður borðuðu í þúsundir og milljónir ára. Gíraffar antílópur ljón úlfar tígrisdýr fílar og allar hinar tegundirnar borða bara sitt fæði og fitna ekki um of. Það er vegna þess að hormónaviðbrögð líkamans við fæðinu gera það að verkum að dýrin hafa fullkomna stjórn á matarlistinni. Ekkert dýr þarf að telja kalóríur.
Offita fór að verða vandamál á vesturlöndum um og upp úr 1980. Sennilega vegna þess að þá fóru vesturlandabúar að borða meira af einhverju sem þeir ættu ekki að borða. Svo merkilega vill til að opinberar ráðleggingar um mataræði komu fram í kring um 1980. 
Ef þú þarft að telja kaloríur eða stunda mikla hreyfingu til að þyngjast ekki. Þá ertu að borða vitlaust fæði.
Það er nú það.

Lifið heil heilsu,

Ævar Austfjörð, kjötiðnaðarmaður, matartæknir og næringarnörd.

 


Nýjast