Þegar Kalli Gloría tryggði Þingeyingum ódýrustu fótanuddtækin á landinu

Karl Hálfdanarson t.h. Til vinstri er annar músíkmaður á Húsavík, einn af Tékkunum góðu sem störfuðu…
Karl Hálfdanarson t.h. Til vinstri er annar músíkmaður á Húsavík, einn af Tékkunum góðu sem störfuðu við Tónlistarskólann á sínum tíma, en við kunnum ekki að nefna. Mynd: Óli á Borgarhóli.

Karl Hálfdanarson, gjarnan nefndur Kalli Gloría, starfrækti um árabil á Húsavík verslunina Radíóver, sem var einnig  viðgerðarverkstæði  með meiru.

Kalli var auðvitað í mikilli og frjálsri samkeppni við granna sína við Garðarsbrautina, Kaupfélag Þingeyinga og Bókaverslun Þórarins Stefánssonar, en Radíóver var til húsa í gömlu Klemmu sem nú er horfin af yfirborði jarðar. Þessir aðilar voru þátttakendur í einhverju ógurlegasta kaupæði Íslandssögunnar, því allir seldu þeir hin alræmdu fótanuddtæki sem voru „Jólagjöfin“ með stórum staf á sínum tíma.

Kalli hafði selt þetta furðulega fjölmúlavíl svo grimmt, að þegar Þorláksmessa, aðalsöludagurinn rann upp, átti hann aðeins tvö tæki eftir og engin von um að fá fleiri. En það sem verra var, hann vissi að bæði KÞ og Ingvar bóksali áttu miklar birgðir af þessum plastdöllum.

Uppkomin  staða hugnaðist Karli afar illa, að samkeppnisaðilarnir tveir ættu eftir að stórgræða á sölu hundruða fótanuddtækja á lokasprettinum fyrir jólin á meðan hann ætti aðeins tvö eftir. Þá datt honum í hug snilldarbragð, sem að vísu tryggði honum sjálfum engan gróða, en kæmi alltént í veg fyrir að Ingvar og KÞ græddu svo mjög sem allt útlit var fyrir. Hann setti upp stóreflis auglýsingu í gluggann á Klemmu og auglýsti 50% afslátt af fótanuddtækjum fram til jóla.

Að sjálfsögðu seldi hann strax tækin tvö sem til voru, en af einhverjum ástæðum tók hann  auglýsinguna ekki niður. Og að sögn Kalla brugðust bæði Ingvar og KÞ snarlega við og í sönnum samkeppnisanda lækkuðu þeir verðið á sínum  tækjum um sömu prósentu og  seldu þau öll langt undir kostnaðarverði.

 „Vissulega tapaði ég á þessum tveimur fótanuddtækjum sem ég seldi á hálfvirði, en Ingvar og Kaupfélagið töpuðu auðvitað margfalt meira á þeim fjölmörgu tækjum sem þeir seldu. En það var auðvitað ekki aðalatriðið, heldur hitt, að með þessu trixi tókst mér að gleðja fjölda Þingeyinga sem eignuðust langódýrustu fótanuddtæki á landinu fyrir þessi jól!“

Sagði Kalli Glor. JS


Nýjast