Þegar íhaldið á Húsavík fjárfesti í framsóknarhappdrætti Sunnlendinga!

Jón Kristinsson, var snjall og vel metinn myndlistarmaður og málverkið á veggnum hans. Og greinilega…
Jón Kristinsson, var snjall og vel metinn myndlistarmaður og málverkið á veggnum hans. Og greinilega glúrinn prangari að auki. Mynd: JS

Jón Kristinsson, (Jóndi í Lambey)  fæddist og ólst upp á Húsavík. Hann var maður glaðvær, glettinn og jafnvel hrekkjóttur alla æfi. Og afrekaði það m.a., að sögn bróður hans, Óla Kristins, að selja stækum sjálfstæðismönnum heilu staflana af happdrættismiðum Framsóknarflokksins.

Þannig var að þeir gallhörðu sjálfstæðismenn og bræður Jónda, Óli og Páll Þór, fengu eitt sinn tilkynningu um að þeir ættu óskilgreinda póstkröfu á Pósthúsinu á Húsavík og sendandi væri Jóndi bróðir. Óla og Palla þótti þetta nokkuð dularfullt, en fóru eigi að síður á pósthúsið og leystu út böggulinn með þó nokkrum tilkostnaði. Spenntir opnuðu þeir bræður pakkann og féll auðvitað allur ketill í eld þegar í ljós koma að þeir höfðu þar fjárfest í einum 50 happdrættismiðum til styrktar einhverju framsóknarfélagi á Suðurlandi!

Framsóknarmaðurin Jóndi hafði nefnilega verið skikkaður til að selja þessa miða í þágu flokksins í sinni heimasveit, og leysti málið á þennan snilldarlega hátt á einu bretti - með því að senda alla miðana í póstkröfu sínum stæku íhaldsbræðrum á Húsavík norður! JS


Nýjast