Þegar Diddi Hall varð orðlaus á sviðinu: „Sigurður, ég er líka í þessu leikriti!“

Sá góði maður Bjarni Pétursson af Grafarbakkaætt hefur komið víða við, á knattspyrnuvöllum, flugvöll…
Sá góði maður Bjarni Pétursson af Grafarbakkaætt hefur komið víða við, á knattspyrnuvöllum, flugvöllum og já, á leiksviði einnig.

Þeir frændur Sigurður Hallmarsson  heitinn og eðal Völsungurinn Bjarni Pétursson léku eitt sinn saman í stykki hjá Leikfélagi Húsavíkur. Sigurður var að auki leikstjóri en Bjarni fór með tiltölulega lítið hlutverk og kom aðeins einu sinni inn á sviðið í sýningunni.

Það gerði hann þegar Sigurður var í miðjum mónólóg og Bjarni átti að skjótast inn um leið og Diddi mælti tiltekið stikkorð. Diddi átti það hinsvegar til að fylgja ekki alltaf handritinu nákvæmlega og lenti Bjarni snemma í innkomuvandræðum vegna þessa og gagnrýndi frænda sinn ákaflega fyrir.

Svo gerðist það eitt sinn á sýningu að Bjarni var í viðbragðsstöðu bak við leiktjöldin, tilbúinn að þjóta inn  með látum um leið og Sigurður mælti fram stikkorðið. En að þessu sinni kom það bara alls ekki, Sigurður hljóp yfir kafla og spann svo áfram af miklum móð í einræðunni. Og þar kom að Bjarna leiddist þófið, hann gekk ótilkvaddur þungum skrefum inná sviðið og pikkaði öskuvondur í öxlina á frænda. Og þegar Diddi snéri sér undrandi við, mælti Bjarni og kvað fast að: „Sigurður, ég er líka í þessu leikriti!“ JS

 


Nýjast