Það er sitthvað gála í Mývatnssveit og gála á Húsavík

T. h. er Húsvíkingurinn sem tókst hið ómögulega – að gjalda Mývetningi rauðan belg fyrir gráan. Sá t…
T. h. er Húsvíkingurinn sem tókst hið ómögulega – að gjalda Mývetningi rauðan belg fyrir gráan. Sá til vinstri er ekki Mývetningur. Mynd: Þorgeir Baldurs.

Á svokölluðu heimaréttakvöldi í Mývatnssveit, þar sem dragúldin egg, gálur og annað hnossgæti heimamanna var snætt, vildi gestur frá Húsavík fá að vita hvers kyns silungur það væri sem Mývetningar nefndu gálur.

Hjörleifur Sigurðarson frá Grænavatni útskýrði það skilmerkilega. En bætti svo við að til væru annars konar gálur og það væru konur sem hlytu yfirleitt þau hörmulegu örlög að giftast Húsvíkingum! Þetta þótti viðstöddum Mývetningum helvíti gott.

Ritstjóri frá Húsavík var þarna veislustjóri og gat ekki setið undir því að kona hans og aðrar heiðvirðar eiginkonur Húsvíkinga væru sproksettar með þessum hætti. Og fór því í pontu og sagði að eitthvað væri þetta málum blandið hjá Hjörleifi.

Það væri að vísu rétt að óupplýstir húsvískir æskumenn hefðu á stundum átt skammvinnt samneyti við gálur, já og jafnvel sofið hjá þeim eina nótt eða svo. En þeir giftust aldrei þessum gálum, einfaldlega vegna þess að þeir sendu þær ævinlega öfugar heim til föðurhúsanna morguninn eftir – með kísilbílnum! JS

 


Nýjast