Óvelkomið Innvortis jólapönk á Sölkuplássinu á Húsavík

Innvortis, allnokkrum árum eftir jólatónleikana á Sölkutorgi. F.v.  Böbbi, Bibbi, Aggi og Billi. Myn…
Innvortis, allnokkrum árum eftir jólatónleikana á Sölkutorgi. F.v. Böbbi, Bibbi, Aggi og Billi. Mynd: JS

Pönkrokksveitin Innvortis reyndi að skemmta bæjarbúum á Húsavík á aðventunni 1988 með tónleikum í 10 gráðu frosti á Sölkutorginu og gerðu það kröftuglega og með tilheyrandi trukki. Í bandinu voru snillingar sem síðar hafa gert garðinn frægan með Ljótu hálfvitunum, Skálmöld og Police, (Billi er lögga),  þannig að þeir Bibbi, Böbbi, Billi og Aggi eru auðvitað nú metnir til þjóðargersema, en þeir voru það sko alls ekki á aðventunni 88.

„Ég hélt að hér yrðu spiluð gömlu góðu jólalögin!“ Sagði forviða miðaldra kona og hélt fyrir eyrun. Önnur af sama kalíberi vatt sér að pönkurum og spurði hvort ekki væri von til að hljóðfæri þeirra bræddu úr sér í öllum þessum larmi, ellegar frysu í hel á staðnum, ásamt og með sveitarlimum?

Innvortispiltar svöruðu með því að kynna og spila glænýtt, frumsamið jólalag með trukki sem byrjaði svona: „Þetta er jólalagið í ár/ ef þú hlustar vel og syngur með/ þá kanntu það upp á hár!“ JS


Nýjast