Manntjón varð lítið sem ekkert í Kópaskersskjálftanum!

Sigurður Bogi Sævarsson ásamt Harrison Schmitt, síðasta manninum sem stigið hefur fæti á tunglið. Þa…
Sigurður Bogi Sævarsson ásamt Harrison Schmitt, síðasta manninum sem stigið hefur fæti á tunglið. Þar, eins og á Kópaskeri, hefur manntjón orðið lítið sem ekkert. Mynd: Úr fórum SBS.

Þegar miklar jarðhræringar gengu yfir Norður-Þingeyjarsýslu með tilheyrandi jarðraski í Kelduhverfi og skemmdum á húsum á Kópaskeri, var að sjálfsögðu mjög um það fjallað í fjölmiðlum, enda stórtíðindi.

Mörgum árum síðar rifjaði Dagur á Akureyri upp þessa atburði í tengslum við umfjöllun um jarðskjálfta á landinu að fornu og nýju. Eitt atriði í þessari upprifjun Dags vakti  sérstaka athygli Norður-Þingeyinga. Þegar blaðamaður Dags klikkti út með eftirfarandi setningu í lok umfjöllunar sinnar um Kópaskersskjálftann mikla: “Manntjón varð lítið sem ekkert í þessum hamförum.”

Yfirleitt er það nú talið til helstu tíðinda þegar manntjón verður í náttúruhamförum og þá er jafnan greint nákvæmlega frá fjölda látinna. En umræddur blaðamaður Dags (sem reyndar var Sunnlendingur,  Sigurður Bogi að nafni) virtist álíta að ja, það væri ekki svo nauið hve margir Þingeyingar hefðu farist, tvö þrjú stykki kannski, eða með öðrum orðum: Lítið sem ekkert manntjón!

Að sjálfsögðu féll þarna enginn í valinn. En einhverjir töldu þetta  lýsa í hnotskurn hinni akureysku framsóknarstefnu Dags og að þar á bæ væru þingeysk mannslíf bara ekki til fleiri fiska metin en þetta. JS

 


Nýjast