Kristinn kaupi lagði sig á milli leikja

Skákmeistarinn Hjálmar Theodorsson. Mynd: Viðar Breiðfjörð.
Skákmeistarinn Hjálmar Theodorsson. Mynd: Viðar Breiðfjörð.

 

Hjálmar Theodorsson var mikill og öflugur skákmaður á Húsavík í áratugi. En skákhefðir á staðnum breyttust mjög í áranna rás eins og og Hjalli Te lýsti svo vel í viðtali:

„Ég man til dæmis eftir skák sem ég tefldi við Kristinn Jónsson kaupa. Við byrjuðum klukkan 8 um kvöldið heima hjá Kristni. Skákin stóð fram eftir nóttu og Kristinn hafði þann sið að þegar hann átti að leika, þá lagði hann sig í sófann (og það áttu ekki margir sófa á Húsavík á þeim árum), breiddi vasaklút yfir andlitið og þóttist vera að hugsa stíft. En var auðvitað bara að hvíla sig vel á milli leikja og dottaði jafnvel, á meðan á mig seig höfgi.

Skákinni lauk svo klukkan 7 um morgunin með sigri Kristins, sem þá var bæði úthvíldur og mun andlega ferskari en með öllu ósofinn ég.“ JS


Nýjast