Diddi Hall: Húsvíkingar fundu upp innanhúsfótbolta utanhúss!

Ógleymanleg, bæði tvö. Herdís Birgisdóttir og Sigurður Hallmarsson, Dísa og Diddi. Mynd: JS
Ógleymanleg, bæði tvö. Herdís Birgisdóttir og Sigurður Hallmarsson, Dísa og Diddi. Mynd: JS

Sá landsfrægi leikari, leikstjóri, listmálari, tónlistarmaður, skólastjóri og sithvað fleira, Sigurður Hallmarsson, varð áttræður þann 24. nóvember 2009 og í tilefni af því birtist ítarlegt viðtal við kempuna í héraðsfréttablaðinu Skarpi. Margt bar á góma, m.a. uppvaxtarárin á Húsavík. Sigurður er þekktur fyrir flest annað en færni í fótbolta, en hann virðist engu að síður hafa átt sinn þátt í knattspyrnusögu þjóðarinnar, samanber eftirfarandi:

“Við vorum í fótbolta og ég vil halda því fram að við höfum eiginlega fundið upp og þróað innanhúsfótbolta utanhúss, því við spiluðum í gömlu fjárréttinni undir berum himni og notuðum réttarveggina, sem voru úr timbri, fyrir batta. Við spiluðum flestir í gúmmískóm og þeir vildu fljúga af fótunum þegar maður sparkaði fast. Og þá var brugðið á það ráð að skera niður hjólhestaslöngur og smeyja utan um ristina svo skórnir tylldu á fæti. Allir þekkja skíðabindingar, en þetta voru sem sé fótaboltabindingar og var mikil og góð uppfinning.“

Sagði Diddi Hall. JS


Nýjast