Dæmigerður gáfaður Þingeyingur og Hollywoodgella frá Húsavík

Margrét Sverrisdóttir.. „sú er lagleg og minnir á Hollywood gellu með „alþjóðlegt  filmstjörnubros.“…
Margrét Sverrisdóttir.. „sú er lagleg og minnir á Hollywood gellu með „alþjóðlegt filmstjörnubros.“ Mynd: ruv/js

Myndlistarmaðurinn Steingrímur St. Th. Sigurðsson reit óvenjulegan leikdóm í Víkurblaðið á sínum tíma um sýningu Leikfélags Húsavíkur á Gauragangi og var nálgun hans á persónur og leikendur, sem flestir voru þarna ungir að árum, með öðrum hætti en venja var til í þessu menningarriti:

„Húsvísku leikararnir eru sumir hverjir bráðlifandi á fjölunum, til að mynda Friðfinnur Hermannsson, barnabarn Friðfinns heitins Ólafssonar að vestan, bíóstjóra Háskólabíós. Margrét Sverrisdóttir, góður leikari og sú er lagleg og minnir á Hollywood gellu með „alþjóðlegt  filmstjörnubros,“ eins og Auden skáld talar um í lýsingu á laglegum íslenskum stúlkum í „Letters from Iceland.“

Það var gaman af gerðum eins og Oddi Bjarna, Elísabetu Björnsdóttur, Kolbrúnu Þorkelsdóttur og Kristjáni Magnússyni, sem er dæmigerður gáfaður Þingeyingur, það leynir sér ekki.“

Skrifaði Steingrímur.

Hvað umrædda leikara sem Steingrímur nefnir til sögunnar varðar,  má geta þess að öndvegismaðurinnn Friðfinnur Hermannsson lést fyrir fáum vikum; Kolbrún er lögfræðingur í Reykjavík; Kristján Magg, hinn dæmigerði gáfaði Þingeyingur, er nú sveitarstjóri í Norðurþingi; Oddur Bjarni er Ljótur hálfviti og klerkur á Möðruvöllum og Margrét, „Hollywood gellan með alþjóðlegt filmstjörnubros,“ er nú leikstjóri og prestsmaddama á Möðruvöllum. JS

 


Nýjast