Vilja Gilið að grænni götu

Mikil vilji er til þess að gera Listagilið að vistvænni götu.
Mikil vilji er til þess að gera Listagilið að vistvænni götu.

Fundur um framtíð Listagilsins á Akureyri var haldin í vikunni en Listagilið stendur á ákveðnum tímamótum. Ný uppgert Listasafn opnar í lok ágúst með nýju kaffihúsi og glæsilegum sýningarsölum.

„Hvernig sjáum við fyrir okkur að fá notið þessa sem best?“ er spurning sem varpað var fram fyrir fundinn.

Hlynur Hallsson, safnstjóri á Listasafninu, segir fundinn hafa verið góðan en það sem helst hafi verið til umræðu hafi verið leiðir til að minnka bílaumferð og auka umferð gangandi og hjólandi vegfarenda um götuna.  „Ýmsum hugmyndum var velt upp og sú róttækasta var að gera Gilið að göngugötu. En það mun sennilega aldrei nást í gegn. Einnig var velt fyrir sér hvort hægt væri að hægja á umferðinni með einhverjum hætti og gera götuna vistvænni,“ segir Hlynur. Niðurstaða fundarins var að vinna þarf hugmyndirnar með bæjaryfirvöldum.

Opinn fundur í haust

Til stendur að boða til annars funds í haust en um opinn fund yrði að ræða þar sem hagsmunaaðilar, bæjaryfirvöld og almennir bæjarbúar myndu taka þátt í umræðum. Hlynur segir mjög skiptar skoðanir vera um hvað sé best að gera.

„Einhverjir segja að það væri tilvalið að hafa einstefnu niður Gilið og einstefnu upp Oddeyrargötuna. Aðrir segja að það gangi alls ekki. Sumir vilja minnka hámarkshraðann niður í 30 km. Einnig eru skiptar skoðanir um hraðahindranir. Þannig að það er ýmislegt að ræða og finna þarf góða lausn sem fólk getur almennt verið sátt um. En það er mikill áhugi á að gera götuna þannig að hún verði meira spennandi fyrir fólk og finna leiðir til að gera Gilið grænna og að vistvænni götu,“ segir Hlynur.


Nýjast