Útgáfutónleikar og dægurlagaperlur á Græna hattinum

Fjölbreytt dagskrá verður á Græna hattinum um helgina. Í kvöld, fimmtudagskvöld, verður uppistand sem gengur undir nafninu Goldengang Comedy þar sem fjórir íslenskir uppistandarar troða upp á ensku. Í þrjú ár hafa þeir troðið upp yfir 300 sinnum á hinum ýmsu börum Reykjavíkur og töldu að tími væri tilkominn að bregða sér til Akureyrar með sína vinsælu sýningu. Þetta eru þeir Arnór Daði, Greipur, Helgi Steinar og Gísli Jóhann. Uppistandið hefst kl. 21.00.

Á föstudagskvöldið 7. september verður svo endurtekin dagskrá vegna fjölda áskorana sem flutt var fyrr í sumar þar sem þau Guðrún Gunnars, Óskar Pétursson og Magni Ásgeirsson syngja sín uppáhaldslög við undirleik Valmars Valjaots.   Farið verður í gullkistur íslenskrar dægurtónlistar. Skemmtunin hefst kl. 21.00.

Útgáfutónleikar JAK verða svo á laugardagskvöldinu 8. september. Söngvarinn Stefán Jakobsson hefur fyrir löngu getið sér gott orð með hljómsveitinni DIMMA og víðar. Undanfarin misseri hefur hann unnið að sinni fyrstu sólóplötu. Platan nefnist einfaldlega JAK sem er einnig listamanns nafn Stefáns. Tónlistina vann Stefán í samvinnu við Halldór Á. Björnsson (Ledgend).

Textasmíðar voru svo í höndum Stefáns og Magnúsar Þórs. Landskunnir tónlistarmenn og vinir ljáðu Stefáni raddir og hljóðfæraleik á plötunni sem spannar breitt litróf. Nú þegar hafa lögin Flóttamaður og Ánauð fengið að hljóma í eyru landsmanna og fengið frábærar viðtökur og ratað inná vinsældarlista útvarpsstöðva. Hljómsveitina skipa Stefán Jakobsson, söngur, Birgir Jónsson, trommur, Birkir Rafn Gíslason, gítar og Hálfdán Árnason bassi. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.

 


Nýjast