Soffía hættir sem fræðslustjóri

Soffía Vagnsdóttir. Mynd/Þröstur Ernir
Soffía Vagnsdóttir. Mynd/Þröstur Ernir

Soffía Vagnsdóttir hefur verið ráðinn skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu Reykjavíkurborgar og verður faglegur leiðtogi skólastjóra í borginni. Soffía hefur undanfarin þrjú ár gegnt stöðu fræðslustjóra á Akureyri en á árunum 2006-2014 var hún skólastjóri á Bolungarvík. „Ég er óendanlega þakklát fyrir reynsluna sem ég hef hlotið á Akureyri og öllu því frábæra fólki sem ég hef átt í samstarfi við,“ segir Soffía í samtali við Vikudag.

„Mér finnst skólastarf á Akureyri vera öflugt og það ríkir mikil samstaða í pólitíkinni um að gera vel í því starfi. Það er mikilvægt að þættir í skólastarfi séu ekki gerðir að pólitísku bitbeini, heldur að pólitískir fulltrúar geti rætt sig til niðurstöðu um einstök mál og mér hefur fundist það farsælt í tilfelli fræðsluráðsins og bæjarstjórnar. Vissulega hefur mikið mætt á stjórnendum skólanna á undanförnum misserum, athyglin beinist stöðugt að því sem skólarnir geti gert betur, en samfélagið getur auðvitað líka gert betur, bæði foreldrar og aðrir sem koma að börnum með einum eða öðrum hætti. Börn eiga alltaf að vera í forgangi.“

Aftur í höfuðborgina eftir 19 ára fjarveru

Soffía segist spennt fyrir nýju starfi og mun hún setjast aftur að í höfuðborginni eftir 19 ára fjarveru, en Soffía bjó áður í Bolungarvík þar sem hún er uppalin. „Ég er auðmjúk og þakklát fyrir traustið sem mér er sýnt með því að taka við þessu starfi. Einnig er ég full tilhlökkunar að mæta nýjum áskorunum. Það eru spennandi tímar framundan.“ 


Nýjast