Rúv og MAk ræða samstarf

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri, Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri MAk og Þorvaldur…
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri, Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri MAk og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri MAk.

Rúv og Menningarfélag Akureyrar (MAk) ræða þessa dagana um mögulegt samstarf með það að markmiði að þjónusta almenning betur. Á vef MAk segir að Rúv sé með öfluga starfsstöð á Akureyri og sé að leita eftir samstarfi til að efla enn frekar þann lið í þeirri stefnu Ríkisútvarpsins að auka tengsl þess við almenning um allt land.

„Markmið félaganna fara vel saman, þar sem þau vilja bæði stuðla að auknu framboði og fjölbreytileika í menningar- og listalífi Norðurlands. Þannig sjá forystumenn beggja félaga tækifæri til að ná betur markmiðum sínum með því að sameina krafta sína. Mögulegt samstarf sem hefur verið rætt snýr að verkefnum þeirra þriggja sviða sem mynda MAk; Leikfélag Akureyrar, Menningarhúsið Hof og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, auk Fundar fólksins, sem fer fram á Akureyri í byrjun september,“ segir á vef MAk.

Spennandi möguleikar

Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri MAk, segir í samtali við Vikudag að viðræðurnar séu á byrjunarstigi en báðir aðilar séu fullir
af hugmyndum um hvernig samstarfið gæti orðið. „Með nýju upptökuveri Hofs hafa t.d. möguleikarnir til útsendinga stórbatnað. Því er mögulegt að hægt verði að sýna í sjónvarpinu frá leikverkum hér líkt og hefur verið gert varðandi Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið. Airwaves-hátíðin var t.d. send út í beinni frá Hofi og hér er allt til staðar til að gera þetta kleift. Þetta er mjög spennandi tækifæri fyrir bæði okkur og Rúv,“ segir Þuríður.


Nýjast