Opið hús í Hofi

Hægt verður að kynna sér menningarveturinn framundan í Hofi um helgina. Mynd/Auðunn Níelsson.
Hægt verður að kynna sér menningarveturinn framundan í Hofi um helgina. Mynd/Auðunn Níelsson.

Í tilefni að nýútkomnum kynningarbæklingi mun Menningarfélag Akureyrar bjóða alla velkomna í Opið hús í Hofi sunnudaginn 2. september kl. 14 til 16. Í tilkynningu segir að verkefni Leikfélags Akureyrar, Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands séu fjölbreytt og spennandi og verði ýmsu gert skil á Opna húsinu.

Til að mynda verður atriði úr söngleiknum Kabarett, eftir Joe Masteroff, en sýningar á Kabarett hefjast í Samkomuhúsinu í október, hinn ungi einleikari, Alexander Edelstein, leikur á flygilinn og söngatriði flutt úr Krúnk, krúnk og dirrindí, litríkri og fjörugri fjölskylduskemmtun sem öll svið Menningarfélagsins koma að.

„Starfsárið endurspeglar mikla breidd hjá menningarfélaginu. Við erum stórhuga, á sama tíma og við leggjum áherslu á efni handa börnum og búum til ný íslensk barnaverk hugum við að menningararfinum, endurvekjum gamalt efni og bjóðum upp á gimsteina í klassískri tónlist,“ segir Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélagsins.

Dagskrárbæklingur MAk var dreift inn á öll heimili á Akureyri á miðvikudaginn. Til að kynnast starfsárinu enn betur eru allir velkomnir í Hof á sunnudaginn. Auk dagskrárkynningar verður boðið upp á vöfflur og kaffi, ljúfa tónlist, leiðsögn um Hof, listasmiðju fyrir börnin og margt fleira, segir í tilkynningu frá MAk.

 


Nýjast