Norðlenskur bakgrunnur í nýrri íslenskri bíómynd

Ása Helga Hjörleifsdóttir og Gríma Valsdóttir aðalleikona myndarinnar við Skeiðsvatn eftir langar tö…
Ása Helga Hjörleifsdóttir og Gríma Valsdóttir aðalleikona myndarinnar við Skeiðsvatn eftir langar tökudag.

Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir myndinni Svanurinn sem nú er í sýningum í bíóhúsum landsins og er m.a. sýnd í Borgarbíói á Akureyri. Myndin, sem er byggð á skáldsögu Guðbergs Bergssonar, var nánast að öllu leyti tekin upp í Svarfaðardal en þaðan er Ása Helga ættuð. Heimamenn þar voru í aukahlutverkum og einnig tvær stúlkur frá Akureyri. Myndin var forsýnd á Dalvík á milli jóla og nýars.

„Í grunninn er þetta saga um níu ára stelpu, leikin af Grímu Valsdóttur, sem er send í sveit um sumartíma til fjarskyldra ættinga, og flækist þar inn í líf fullorðna fólksins, ekki síst í drama sem er í gangi hjá 23 ára heimasætunni á bænum sem Þuríður Blær Jóhannsdóttir leikur,“ segir Ása. „Myndin er í raun um þær báðar, og hvernig þær fullorðnast á ólíkan hátt þetta sumar. Þriðja aðalhlutverkið í myndinni er svo í höndum Þorvaldar Davíðs Kristjánssonar, en hann leikur nokkuð dularfullan vinnumann á bænum. Ingvar E. Sigurðsson og Katla Margrét Þorgeirsdóttir leika svo bóndahjónin.“

Norðurland hentar vel fyrir kvikmyndatökur

Ása segist alltaf hafa séð fyrir sér Svarfaðardalinn sem tökustað. „Líka þegar ég las bókina. Þegar fjöllunum var lýst sá ég alltaf fyrir mér Stólinn og Kerlinguna sem dæmi. Norðurland er mjög góður tökustaður. Það er tiltölulega auðvelt að sækja alla þjónustu, og náttúran er óviðjafnanleg. Og eins og framleiðendur myndarinnar sögðu um daginn þegar við vorum að frumsýna myndina, þá eru Svarfdælingar og Dalvíkingar líka svo einstaklega hjálpsamir og gestrisnir.

Allir lögðu hönd á plóg og hjálpuðu okkur að gera þessa mynd. Þeir eiga svo sannarlega mikið í henni, enda frumsýndum við myndina fyrst þar og svo fyrir sunnan.“ Ása segir það hafa verið lítið mál að fá heimafólk til að leika í myndinni. „Þeir tóku þessu öllu með opnum hug og aukaleikararnir stóðu sig með prýði. Tvær stúlkur frá Akureyri leika stór aukahlutverk í myndinni en það eru þær Aldís Ösp Sigurjónsdóttir og Sara Lind Sigursteinsdóttir sem stóðu sig mjög vel.“

Lærði kvikmyndagerð í New York

Ása lærði kvikmyndagerð í Columbia háskólanum í New York. Hún hefur skrifað og leikstýrt þó nokkrum stuttmyndum, og ber þá helst að nefna myndirnar Ástarsaga og Þú og ég. Svanurinn er hennar fyrsta mynd í fullri lengd. Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto haustið 2017 og hefur flakkað á milli kvikmyndahátíða síðan þá og er enn að ferðast erlendis. „Næst á dagskrá erlendis er kvikmyndahátíðin í Gautaborg sem og þó nokkrar aðrar í febrúar,“ segir Ása.

„Stundum eru svona myndir tvö ár að rúnta á milli hátíða. Ég hef farið á ýmsa staði núna með myndinni til að kynna hana erlendis, og það sem snertir mig mest er að sjá hvernig svona saga, um stelpu í sveit á Íslandi, getur höfðað á mjög djúpstæðan hátt til fólks á allt öðrum aldri, í allt öðrum menningarheimi. Það sýnir manni kannski að tilfinningar okkar eru handan við öll landamæri; allir geta tengt við þær,“ segir Ása Helga Hjörleifsdóttir

 


Nýjast