„Moldrík af hugmyndaríku og sniðugu fólki“

Stórtónleikar í Listagilinu verða á sínum stað í kvöld þar sem Friðrik Dór, Helgi Björnsson og Eyþór…
Stórtónleikar í Listagilinu verða á sínum stað í kvöld þar sem Friðrik Dór, Helgi Björnsson og Eyþór Ingi eru á meðal þeirra sem koma fram. Mynd/Akureyrarbær.

Akureyrarvaka er nú í fullum gangi en hátíðin hófst í gær. Lokapunkturinn verður í kvöld þegar stórtónleikar fara fram í Gilinu kl. 21:00. Edda Borg Stefánsdóttir er annar af verkefnstjórum Akureyrarvöku og spjallaði Vikudagur við Eddu um hátíðina.

„Það er óhætt að segja að dagskráin sé litrík og girnileg. Eitthvað fyrir alla, tónlist, leiklist, tækni, menning og margt fleira. Rökkurró, fjölskyldufjör og stórtónleikarnir í Gilinu verða á sínum stað. Svo verða markaðir, sýningar og alls konar skemmtilegheit,“ segir Edda Borg. „Í ár bættum við inn viðburði sem við köllum „Grasrótartónleikar“. Þar fær ungt hæfileikaríkaríkt tónlistarfólk úr heimabyggð að spreyta sig á stóra sviðinu. Einnig kom Iðnaðarsafnið á Akureyri nýtt inn í ár.“

 

Spurð segir Edda að vel gangi að fá fólk fyrirtæki til að vera með viðburði á hátíðinni. „Einstaklingar og fyrirtæki eru mjög dugleg að senda okkur inn hugmyndir og fyrirspurnir. Engin skortur þar á ferðinni, enda er Akureyri moldrík af hugmyndaríku og sniðugu fólki.“

Edda Borg Stefánsdóttir

Kveðja sumarið og bjóða haustið velkomið

Akureyrarvaka er einskona lokapunktur á menningarsumrinu segir Edda Borg. „Allt sumarið er stútfullt af alls konar afþreyingu en þetta er svona „lokasmellurinn“. Akureyrarvaka er afmælishátíð Akureyrarbæjar og því ber auðvitað að fagna. Á sama tíma tengja margir þetta við það að kveðja gott sumar og bjóða haustið velkomið.“ Edda Borg segir að bæjarbúir séu duglegir við að sækja hátíðina. „Mér finnst það, já. Hátíðin er orðin eins konar fastur liður og margir byrja snemma að hlakka til að vita hvað verður að sjá, skoða, smakka og þar fram eftir götunum.“ Hægt er að sjá alla dagskrána á www.akureyrarvaka.is.


Nýjast